Mamma Arons spáir Íslandi áfram

Aron Einar ásamt móður sinni Jónu á góðri stundu.
Aron Einar ásamt móður sinni Jónu á góðri stundu.

„Ég hringi í Aron fyrir hvern einasta leik og við spjöllum lengi saman. Ég talaði við hann í gær og hann var nokkuð sprækur og er klár í slaginn. Mér finnst gott að heyra í honum og óska honum góðs gengis,“ segir Jóna Emilía Arnórsdóttir, móðir Arons Einars Gunnarssonar landsliðsfyrirliða í knattspyrnu. Ísland leikur í kvöld sinn mikilvægasta leik í sögunni er liðið mætir Króatíu í Zagreb í seinni leik liðanna í undankeppni HM.  

„Ég lifi mig inni í leikina með Aroni og sparka stundum með í sófanum. En ég hef horft á svo marga leiki með honum að ég er farin að þola spennuna betur,“ segir Jóna. Hún segist nokkuð bjartsýn fyrir kvöldið.

„Ég veit að þetta verður mjög erfitt og við erum að mæta hörkuliði á þeirra heimavelli. Maður trúir því varla hvað þeir eru komnir langt en ég ætla að spá þeim enn lengra. Leikurinn fer 1-1 og við förum áfram,“ segir Jóna.

En skorar Aron? „Nei það held ég ekki. Ef þetta fer í vítaspyrnukeppni nær hann kannski að skora,“ segir Jóna og hlær.

throstur@vikudagur.is

Nýjast