Leiðrétting frekar en hækkun

„Það gætti ósamræmis í verðskránni, t.d. á milli dagskorts og þriggja tíma korts. Þannig mætti frekar tala um leiðréttingu en beina hækkun,“ segir Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli.

Eins og Vikudagur hefur greint frá hefur verð á kortum og stökum miðum hækkað töluvert frá síðasta vetri. Sem dæmi kostar heill dagur 4.000 krónur í stað 3.300 og þriggja tíma kort hækkar um níu hundruð krónur, eða úr 2.500 í 3.400 kr. Þá hækka sérstök vinakort sem fjórir kaupa saman úr 26.000 í 30.000. Guðmundur bendir á þá nýjung að hægt sé að deila vetrarkortunum með hverjum sem er og þá fái handhafar KEA kortsins nú afslátt á vetrarkortum og stökum miðum.

Vikudagur hefur rætt við nokkra skíðaáhugamenn sem segja marga veigra sér við því að kaupa sér kort vegna hækkuninnar. Hafði einn á orði að þetta væri hreinlega dónaskapur við neytendur.

Nýjast