KEA úthlutar 6 milljónum króna
Samfélagsleg ábyrgð er orðatiltæki sem mikið er látið með um þessar mundir en hjá okkur í KEA hefur slík ábyrgð og hugsun verið ofarlega á blaði um langa hríð. Menningarsjóður KEA eins og hann hét upphaflega úthlutaði í fyrsta skipti árið 1936 en þá hlaut Sjúkrahúsið á Akureyri einu úthlutun sjóðsins. Frá þeim tíma og til dagsins í dag hafa tæplega 1.100 einstaklingar, félög eða stofnanir fengið úthlutað úr sjóðnum og í seinni tíð hefur KEA aukið verulega við samfélagslegan stuðning frekar en hitt, bæði sé horft til fjárhæða, fjölda styrkþega og hlutfalls af rekstrartekjum, sagði Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA er hann afhenti styrki úr Menningar- og viðurkenningarsjóði félagsins.
Þetta var í 80. sinn sem KEA veitir styrki úr sjóðnum, 124 umsóknir bárust að þessu sinni og var úthlutað rúmlega 6 milljónum króna til 34 aðila.