Hver er hæfastur?
Við ráðningar ríkisstarfsmanna gilda ákveðin lög og reglur. Helstu lögin eru þau sem í daglegu tali eru kölluð starfsmannalög, stjórnsýslulög og upplýsingalög. Mikilvægt er fyrir þann sem sér um ráðningamál að kunna vel skil á þeim. Til að auðvelda þetta verk er til sérstök handbók á heimasíðu fjármálaráðuneytisins sem kallast Ráðningar hjá ríkinu (http://www.fjarmalaraduneyti.is/media/Utgefin_rit/Radningar-hja-rikinu.pdf) og hef ég nýtt mér hana við ráðningu forseta hug- og félagsvísindasviðs við HA eins og fram kemur hér að neðan.
Staða sviðsforseta
Við Háskólann á Akureyri starfa þrír sviðsforsetar og eru störf þeirra auglýst laus til umsóknar á tveggja ára fresti. Staða sviðsforseta hug- og félagsvísindasviðs við Háskólann á Akureyri var auglýst 20. apríl sl. með umsóknarfresti til 6. maí 2013.
Ráðningarferlið
Fylgt var þeim reglum sem gilda fyrir háskólann varðandi ferlið. Mikilvægt er að ráðningarferlið sé faglegt og skipulagt og miði að því að hæfasti umsækjandinn verði ráðinn hverju sinni. Með því er jafnframt betur tryggt að hlutlægt mat sé ávallt viðhaft við hæfnismatið.
Einn mikilvægasti þátturinn er auglýsing um starfið því allt framhald ráðningarferlisins byggir á henni. Auglýsing um starfið þarf að gefa til kynna hvers konar starf er um að ræða og hvaða hæfni krafist er af starfsmanni sem sinnir því. Markmiðið er að ráða þann umsækjanda sem uppfyllir best kröfurnar sem gerðar eru til starfsins og fram koma í auglýsingu.
Ráðningarferli eru mislöng og geta varað frá nokkrum vikum upp í marga mánuði, allt eftir atvikum hverju sinni. Forstöðumönnum er heimilt að nýta sér þjónustu ráðningarstofa í ráðningarferlinu. Forstöðumaður þarf þó alltaf sjálfur að taka ákvarðanir sem hafa verulega þýðingu fyrir stöðu umsækjenda í ferlinu, svo sem um það hverjum er boðið í starfsviðtal og um sjónarmið sem byggt er á við hæfnismat umsækjenda. Forstöðumaður leggur endanlegt mat á það hver umsækjenda er hæfastur til að gegna viðkomandi stöðu.
Álit dómnefndar og deildafundar
Samkvæmt reglum háskólans var skipuð dómnefnd til að fjalla um umsóknir umsækjenda og skilaði hún áliti sínu 10 júní sl. Þá fengu umsækjendur tveggja vikna frest til að gera athugasemdir við álitið sem þeir nýttu sér og fylgdu athugasemdir þeirra síðan dómnefndarálitinu í ferlinu.
Samkvæmt reglum á deildafundur fræðasviðs að gefa rektor álit varðandi umsækjendur. Þar sem komið var fram í lok júní treysti sviðsforseti sér ekki til að ná saman löglegum deildafundi fyrr en að loknum sumarleyfum. Rektor sendi þá umsækjendum upplýsingar um tímaáætlun vegna framhalds málsins og kom þar fram að ráðning gæti í fyrsta lagi farið fram 1. október en í síðasta lagi 1. janúar 2014. Sviðsforseti boðaði síðan deildafund 21. ágúst þar sem umsækjendum var boðið að kynna áherslur sínar og nýttu þeir sér það. Nýr deildafundur var síðan boðaður 28. ágúst og á þeim fundi fór fram atkvæðagreiðsla um umsækjendur. Á fundinum dreifðust atkvæði það mikið að ekki tókst að fá fram vilja meirihluta fundarmanna og var því mælt með þeim umsækjanda sem flest atkvæði hafi hlotið og það álit sent rektor.
Viðtöl við umsækjendur
Rektor fór með málið fyrir háskólaráð skv. reglum HA og taldi ráðið nauðsynlegt að fram færu viðtöl við umsækjendur. Í dómnefndaráliti kom fram að dómnefnd hafi ekki getað lagt mat á samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum og til að meta þessa þætti væri nauðsynlegt að taka viðtöl við umsækjendur.
Nokkrar ástæður liggja til grundvallar því að viðtal telst nauðsynlegt í ráðningarferlinu. Með því má m.a. sannreyna upplýsingar sem koma fram í umsókn. Þá er viðtalið góður vettvangur til þess að meta ýmis huglæg atriði sem ekki koma beint fram í umsókn, eins og framkomu og færni í samskiptum sem oft geta ráðið úrslitum við val á starfsmanni. Viðtöl hafa alltaf gegnt veigamiklu hlutverki við ráðningar og eru langalgengasta aðferðin. Bestum árangri skilar að hafa starfsviðtölin stöðluð.
Ákveðið var að fá ráðningastofuna Capacent til að taka viðtölin og var þeim falið að afla upplýsinga um samstarfs- og leiðtogahæfni umsækjenda sem og um það hvaða framtíðarsýn þeir hafa fyrir hönd fræðasviðsins/háskólans.
Capacent skilaði sinni skýrslu 15. október 2013. Boðaður var aukafundur í háskólaráði 21. október og þar farið yfir skýrslu Capacent og niðurstaða hennar rædd.
Hlutverk rektors
Að loknum starfsviðtölum þarf rektor að meta hvaða umsækjandi uppfyllir best hæfniskröfur sem gerðar eru til starfsins. Matið snýst um að velja þann ,,besta í starfið. Það byggist á þeirri forsendu að sumir umsækjendur séu ,,betri en aðrir m.ö.o. muni valda starfinu best.
Niðurstaða mín var því að bjóða umsækjandanum Sigrúnu Stefánsdóttur stöðu forseta hug- og félagsvísindasviðs. Rökin fyrir þessari niðurstöðu eru að Sigrún uppfyllir best af umsækjendum þær kröfur sem fram koma í auglýsingunni um starfið. Sigrún hefur í rökstuddu mati dómnefndar áberandi mesta reynslu af stjórnun og rekstri í háskólastarfi og jafngóða eða meiri reynslu í leiðtoga- og stjórnunarhlutverki tengdu háskólastarfsemi. Sigrún kemur einnig sterkast út í rökstuddri skýrslu Capacent.
Hér var því hæfast einstaklingurinn valinn samkvæmt þeim lögum og reglum sem viðhafðar eru um slíkar ráðningar. Allar dylgjur um óheiðarleg vinnubrögð í málinu sem settar hafa verið fram í ýmsum fjölmiðlum eiga því ekki við nein rök að styðjast.
Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri