Furðuskrif Guðmundar

Ég hef nú lengi verið í bæjarstjórn, en sjaldan eða aldrei man ég eftir svona háttarlagi eins og bæjarfulltrúi Guðmundur sýnir af sér með greinaskrifum í síðasta Vikudag.Það hefur áður verið skoðað að setja fráveitu undir Norðurorku þannig að öll veitustarfsemi sé rekin á sama stað.

Norðurorka rekur rafveitu, hitaveitu og vatnsveitu. Því þá ekki fráveitu líka?

Það liggur í augum uppi að sameina rekstur af sama eða líkum meiði, gefur hugsanlega færi á hagræðingu. Við hjá L-listanum höfum verið að velta þessu lengi fyrir okkur og höfum látið óháða aðila skoða málið. Unnið hefur verið að þessu síðan snemma árs 2011.

Fyrir nokkrum vikum lögðum við þessa hugmynd fyrir bæjarráð og þar með minnihlutann, þar sem skipaður var starfshópur, til að skoða hvort ráðlegt væri að gera þetta eða ekki. Í starfshópnum eiga sæti, bæjarstjóri, fjármálastjóri og svo einn fulltrúi frá meirihluta, sem er ég og einn frá minnihluta sem er Guðmundur.

Nú bregður svo við að bæjarfulltrúi Guðmundur er greinilega búinn að mynda sér skoðun á málinu, áður en allir fletir eru skoðaðir. Það er auðvitað sérstakt að kynna sér ekki málið áður. Það var þó annað sem vakti meiri undrun mína. Hann skrifar blaðagrein um málið á meðan enn er verið að kanna hvort rétt sé að færa fráveituna.

Þessi hópur hafði hist einu sinni, þar sem farið var yfir sjónarmið, hugsanlega athugun, möguleika og hvaða upplýsingar vantar áður en hægt er að kveða úr um með það hvort þetta sé fýsilegur kostur, þegar bæjarfulltrúi Guðmundur ákveður að skrifa þessa grein.

Hann fullyrðir líka í greininni hluti, sem ég er ekki viss um að séu alls kostar réttir. Þess vegna erum við að skoða málið.

Ég minni á að hann er fulltrúi allra minnihlutaflokkana í þessum starfshóp. Hvaða hvatir liggja að baki þeirri ákvörðun að skrifa um opinberlega, áður en starfshópurinn hefur kynnt sér allar hliðar veit ég ekki en grunar að verið sé að reyna að kasta rýrð á L-listann.

Ég get fullvissað fólk um það að við munum skoða málið eins vel og við getum, áður en við tökum ákvörðun.

Við munum að sjálfsögðu taka þá ákvörðun sem við teljum besta fyrir bæjarsjóð og Norðurorku. Ég minni á að bærinn á 98,26% í Norðurorku og gerir því að sjálfsögðu ekkert sem kemur eigin fyrirtæki illa.

Þess má geta að bæði Norðurþing og Fljótsdalshérað hafa á kjörtímabilinu fært fráveitur sínar undir veitufyrirtæki sín. Framsóknarflokkurinn er í meirihlutasamstarfi á báðum stöðum.

Oddur Helgi Halldórsson

Höfundur er bæjarfulltrúi L-listans

og formaður Framkvæmdaráðs.

Nýjast