Fólk fer síður í kirkju
Arna Ýrr Sigurðardóttir prestur við Glerárkirkju á Akureyri segir kirkjusókn fara minnkandi um jólin. Þetta hefur verið þróunin síðustu ár hérna á Akureyri og ég held að það sama gildi um allt land, segir hún. Um hugsanlegar skýringar á minnkandi aðsókn segir Arna Ýrr að eflaust hafi kirkjusókn minni þýðingu fyrir fólk í dag en áður. Sumar fjölskyldur hafa það fyrir sið að fara í kirkju á aðfangadag en aðrir kjósa að hlusta á messu í útvarpinu. Venjur og siðir eru einnig að breytast. Ég held líka að margir séu farnir að slaka meira á í jólahaldinu og hafa hlutina ekki eins fasta í skorðum og áður, segir Arna.
Mikið jólabarn
Mér finnst þetta yndislegur tími, ég er mikið jólabarn og held í hefðirnar. Fyrir mér snúast jólin mikið um samveru fjölskyldunnar. Við erum t.d. mikið fyrir mat og eldum alltaf rjúpur á aðfangadagskvöld. Maðurinn minn veiðir sjálfur í matinn og núna í haust fór ég með honum í veiðitúr til að halda honum félagsskap. Það var mjög skemmtilegt og gaman að taka þátt í að veiða í matinn.