Fimm prósent barna á sérfæði
Um 5% barna í leik-og grunnskólum Akureyrar eru með fæðuóþol eða ofnæmi og þurfa sérfæði í skólum. Algengast er að börnin hafi óþol eða ofnæmi fyrir mjólkurvörum, hnetum, fiski og eggjum. Umræða um stefnu og strauma í mataræði og fæðuóþol hafa verið áberandi undanfarið. Dæmi eru um að foreldrar óski eftir sérfæði fyrir börnin sín á leikskólum vegna breyttrar lífstíls. Beiðnir um breytt mataræði á borð við grænmetis og lágkolvetnafæði hafa hins vegar ekki borist til okkar, segir Gunnar Gíslason fræðslustjóri á Akureyri. En það er boðið upp á ávexti og grænmeti alla daga og því eiga börn að hafa ákveðið val, segir Gunnar.