Ekkert jólalegra en fjósið

Nautgripirnir eru ánægðir með Söru.
Nautgripirnir eru ánægðir með Söru.

Sara María Davíðsdóttir er yngsti bóndinn á Íslandi í dag, aðeins 23 ára gömul. Hún rekur býli á Torfum í Eyjafjarðarsveit ásamt unnusta sínum Þóri Níelssyni. Á býlinu eru 93 nautgripir, 21 kind, átta hænur, tveir kettir og einn hundur. Sara kláraði nám í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands á síðasta ári en skellti sér svo strax í búskapinn þegar tækifæri gafst. Það var eitthvað sem hana hafði lengi dreymt um, enda uppalin í sveit og því fengið að njóta sveitasælunnar áður.

Tækifærin liggja landbúnaði

„Framtíðin í landbúnaði er björt, það er engin spurning. Tækifærin liggja einfaldlega í framleiðslu á landbúnaðarafurðum vegna mikillar eftirspurnar eftir þeim, til að mynda í mjólk, kjöti, ull og skinnum. Ég sé fyrir mér að í framtíðinni átti fólk sig á mikilvægi íslensks landbúnaðar og hversu góðar og heilnæmar afurðir okkar eru. Það er mikilvægt að við sem bændur gerum allt sem í okkar valdi stendur til að framleiða sem bestar afurðir þar sem við höfum allt til alls í íslenskri náttúru. Það má í raun segja að tækifærin liggi einnig í öllu því fólki sem vinnur að framgangi landbúnaðar auk alls þess fólks sem vinnur að því að afla sér nýrrar þekkingar og miðla henni til okkar hinna sem leiðir svo til framfara í atvinnugreininni,“ segir Sara.

Nýjustu niðurskurðartillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar falla ekki í grýttan jarðveg hjá Söru, og meiri áhyggjur hefur hún af gamla skólanum sínum. „Það er hætt við að landbúnaðarfræðin fái litla athygli næst þegar skera þarf niður og sýndur verði lítill skilningur á mikilvægi þess að hafa þau í boði,“ segir Sara

Samskipti bænda  mikilvæg

Félagsmál bænda eru í góðum farvegi að hennar mati, þótt hún sé auðvitað ekki sammála öllu. Hún telur aukin samskipti bænda skipta miklu máli og segir að internetið eigi stóran þátt í því. „Til eru ótal facebook síður sem tengjast landbúnaði svo ekki sé minnst á kýrhausinn þar sem kúabændur ræða þau mál sem brenna á þeim hverju sinni. Fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á landbúnaði eru Samtök ungra bænda góður vettvangur þar sem ungt fólk alls staðar að af landinu getur rætt sín mál og eflt samskipti sín á milli. Samtökin hafa líka komið sínum sjónarmiðum á framfæri í umræðunni sem er mikilvægt fyrir unga fólkið í greininni,“ segir Sara

Jólaveisla hjá dýrunum  

Það er ábyrgðarfullt starf að vera bóndi og dýrunum þarf sinna á aðfangadag eins og aðra daga. „Við förum yfirleitt örlítið fyrr í fjósið en venjulega til að vera búin ekki mikið seinna en hálf sjö og erum venjulega búin að gefa og stússast í kringum skepnurnar fyrir kvöldmjaltir,“ segir Sara.

Dýrin hafa það gott á jólunum á Torfum, Söru finnst það mikilvægt að þau eigi að fá að njóta jólanna líka. „Við gefum nautgripum og sauðfé það hey sem þeim finnst allra best, kötturinn fær blautmat eða annað sem honum finnst mjög gott og hundurinn gott bein að naga“, segir Sara.

Ekkert er jólalegra en fjósið á aðfangadag. „Það að fara í fjósið á aðfangadagskvöld finnst mér eiginlega alveg nauðsynlegur hluti í undirbúningi jólanna og í þau skipti sem ég hef sleppt því frá því að ég var lítil fannst mér hreinlega eitthvað vanta. Ég er því sammála því sem Þórir unnusti minn hefur alltaf sagt að það jafnist ekkert á við það að heyra klukkurnar hringja inn í jólin á meðan maður er að mjólka“, segir Sara.

Tala kýrnar á Nýársnótt?

Sem betur fer hefur Sara ekki heyrt kýrnar tala á Nýársnótt, þrátt fyrir ítrekaðar athuganir. „Þegar ég var krakki man ég að mig langaði alltaf að kíkja út í fjós og athuga þetta nánar og ég man að ég gerði nokkrar tilraunir. Sem betur fer heppnaðist það nú ekki hjá mér því ég hef greinilega gleymt að hlusta á endinn á þjóðsögunni því þar kemur fram að ef maður heyrir kýrnar tala verði maður vitstola,“ segir hinn viðkunnalegi bóndi Sara María Davíðsdóttir að lokum.

-GSS (Frétt unnin af fjölmiðlafræðinema við HA)

Nýjast