Ég óska þér góðra jóla
Jólin eru erfiður tími fyrir marga, t.d. þá sem hafa misst ástvini, segir séra Arna Ýrr Sigurðardóttir prestur við Glerárkirkju á Akureyri. Við segjum alltaf gleðileg jól en það er ekki alltaf sem fólk upplifir jólahátíðina sem gleði. Á Norðurlöndunum óskar fólk hvert öðru góðra jóla og það er kannski réttara. Þú getur ákveðið að eiga góð jól á einhvern hátt og það er ýmislegt annað í jólunum en gleði. Við erum að fagna lífinu og það er engin tilviljun að jólin séu á þeim tíma þegar sólin hækkar á lofti.
-Nú hafa jólin eflaust mismunandi þýðingu fyrir fólk; sumir fagna birtunni en aðrir fæðingu frelsarans?
Já, það er rétt. Við erum oft föst í því að halda að við verðum að trúa bókstaflega að eitthvað ákveðið hafi gerst nákvæmlega eins og það stendur, t.d. Biblíunni. Við vitum að Jesú fæddist ekki á jólunum, það veit enginn með vissu hvenær fæðingin átti sér stað og ártalið er meira segja á reiki. Þetta er aftur á móti saga sem við höfum sagt hvort öðru í gegnum tíðina vegna þess að hún hefur einhverja merkingu fyrir okkur og hjálpar okkur í að setja lífið í samhengi og á bak við hana er einhver dýrmætur raunveruleiki. Við gleðjumst saman yfir hátíð ljóss og friðar á jólunum.
Nánar er rætt við Örnu Ýrr í prentútgáfu Vikudags.