Dagur með drottni
Á morgun opnar Ragnar Hólm Ragnarsson sýningu á nýjum vatnslitamyndum í Populus tremula í Listagilinu á Akureyri. Þetta er sjötta einkasýning Ragnars, sem ber yfirskriftina Dagur með drottni. Hann segir að titillinn vísi fyrst og fremst til hér um bil trúarlegrar upplifunar sem hann verði fyrir í himneskri fegurð íslenskrar náttúru. Það þyrmir stundum yfir mann andspænis fallegu mótífi og maður skilur hvað átt er við þegar talað er um guðdómlega eða himneska fegurð. Eða eins og segir í Kristnihaldi undir jökli eftir Laxness: Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt... Það er einhvern veginn þannig sem manni líður, segir Ragnar Hólm.
Sýningin verður opin á laugardag og sunnudag frá kl. 14-17.