Dagur íslenskrar tungu á Akureyri
Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður nú fagnað í átjánda sinn. Í tilefni dagsins mun Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra heimsækja skóla og stofnanir á Akureyri. Hann mun einnig taka þátt í málræktarþingi unga fólksins á Akureyri sem nú er haldið í annað sinn fyrir nemendur í 10. bekk grunnskóla. Málræktarþingið verður haldið í hátíðarsal Háskólans á Akureyri.
Til þingsins mæta allir 10. bekkingar úr grunnskólum Akureyrar ásamt kennurum en þeir hafa undanfarnar vikur unnið ýmis verkefni um íslenskt mál. Nemendur munu sýna stutt framlag úr hverjum skóla en einnig verður boðið upp á skemmtiatriði.
Markmiðið er að hvetja ungt fólk til skapandi hugsunar á íslensku en viðfangsefni unglinganna varða íslenskt mál með einum eða öðrum hætti. Málræktarþing unga fólksins var haldið í fyrsta sinn í Reykjavík í fyrra með þátttöku þriggja skóla en í ár verða skólarnir sjö; Brekkuskóli, Glerárskóli, Giljaskóli, Lundarskóli, Naustaskóli, Oddeyrarskóli og Síðuskóli.