Af rauðum og svörtum tölum

Í fjárhagsáætlun Akureyrar fyrir árið 2014 er líkt og síðustu ár boðuð ákveðin bjartsýni, reiknað er með jákvæðri rekstrarafkomu uppá rúmlega 529 milljónir og gert er ráð fyrir því að skuldir lækki verulega. Það er gott og hollt að vera bjartsýn en við þurfum hinsvegar líka að vera raunsæ. Það er ekki hægt að horfa framhjá því að rekstur bæjarins hefur ekki verið farsæll á þessu kjörtímabili undir stjórn L-listans.

Á síðustu tveimur árum hefur verið tap á A hluta bæjarsjóðs og stefnir í að afkoman verði langt undir væntingum á þessu ári líka. Staðan er því mjög alvarleg en samkvæmt áætlun næsta árs á ekki að takast á við vandann.

Ný vinnubrögð ekki sjáanleg

Nú er hafið síðasta ár þessa kjörtímabils og í fjórða sinn sem hreinn meirihluti L-listans leggur fram fjárhagsáætlun. Þetta plagg hefur enn eitt árið verið uppfært án þess að til komi neinar skýrar áherslur eða stefnubreytingar um forgangsröðun fjármuna. Það þykir mér skrýtið hjá flokki sem bauð fram fyrir fjórum árum sem boðberi nýrra hugmynda. Í ljósi þess að núverandi meirihluti boðaði breytta stjórnsýsluhætti og nýjar áherslur í rekstri hlýtur það að valda vonbrigðum að við sjáum ekki þessi nýju vinnubrögð.

Loforð L-listans um ábyrgan rekstur

 Þetta gerist þrátt fyrir að L-listinn taki það skýrt fram í stefnuskrá sinni „að kjósendur L-listans viti að það er ekki hægt að eyða um efni fram“. Hér hefur svo sannarlega verið eytt um efni fram á þessu kjörtímabili og þannig hlýtur L-listinn að hafa valdið kjósendum sínum miklum vonbrigðum.

Loforð um ábyrgan rekstur hafa ekki verið efnd og aftur leyfi ég mér að vitna í stefnuskrá L-listans fyrir síðustu kosningar þar sem segir: „Við látum ekki blekkjast af tímabundnum gróða við sölu á verðmætum eignum heldur rýnum í raunverulega stöðu bæjarfélagsins“.

Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi tillögu L-listans um að selja fráveitu bæjarins til Norðurorku til að breyta rauðum tölum í svartar, eins og Oddur Helgi Halldórsson orðaði það.

 

Framtíðarsýn

 Ég hef miklar efasemdir um að verið sé að forgangsraða fjármunum bæjarbúa með þeim hætti sem sanngjarnast er og best fyrir heildarhagsmuni þeirra sjálfra því framlag til sumra málaflokka hefur vaxið mikið á meðan aðrir hafa staðið í stað.

Bæjarstjórn hvers tíma þarf alltaf að spyrja sig hvort þróunin hafi verið góð og bæjarfulltrúar minnihlutans hafa kallað eftir því að allir bæjarfulltrúar fari saman í þá vinnu að fara vandlega yfir rekstur bæjarins og hvernig – og í þágu hverra – fjármunum sé forgangsraðað en það hefur ekki verið gert.

Hér á Akureyri höfum við byggt upp sterka innviði og gott samfélag en til að viðhalda þeim lífsgæðum þarf ábyrgð og sterka framtíðarsýn þegar kemur að rekstri bæjarsjóðs.

Andrea Hjálmsdóttir.

Höfundur er bæjarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar

græns framboðs á Akureyri.

Nýjast