Ætlar að dansa í kringum heiminn
Ármann Einarsson hefur látið af störfum sem skólastjóri Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar og starfar nú sem atvinnudansari. Á næsta ári mun Ármann leggja af stað í heimsreisu með dansverkið Dansaðu fyrir mig. Á meðal viðkomustaða eru Ástralía, Kanada, og Þýskaland. Ferðalaginu líkur svo með mánaðar dvöl í Danmörku, þar sem sýndar verða 15 sýningar. Ármann er 48 ára þriggja barna faðir og hefur aldrei hlotið dansþjálfun.
Fyrir ári síðan kom Ármann hann að máli við tengdadóttur sína, danshöfundinn Brogan Davison, og skýrði henni frá því að sig hefði alltaf dreymt um að dansa samtímadans á sviði. Úr varð að þau sömdu dansverk, sem frumsýnt var á Akureyri fyrr á þessu ári. Sýningin var svo aftur sýnd á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni LÓKAL í Reykjavík í ágúst.
Þar sýndu útsendarar erlendra listahátíða sýningunni áhuga og vill nú Ármann elta drauminn sem lengst og dansa fyrir sem flesta. Áður en Ármann eltir drauminn til útlanda fá Akureyringar tækifæri til þess að upplifa einlægt og bráðfyndið leikhúsverki um langþráða drauma, sköpunarferlið og efann sem hellist yfir mann þegar minnst varir.
Næsta sýning á Dansaðu fyrir mig er í Rýminu hjá Leikfélagi Akureyrar 13. og 14. desember.