310 fjölskyldur fá gjafakort
Byrjað er að afhenda gjafakort jólaaðstoðarinnar á Eyjafjarðarsvæðinu. Alls fá um 310 fjölskyldur slík greiðslukort, sem hægt er að versla fyrir í ákveðnum verslunum á svæðinu. Sigurveig Bergsteinsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar Akureyrar segir að ekki hafi gengið eins vel að afla styrkja og í fyrra, þannig að upphæðirnar á kortunum verða fyrir vikið eitthvað lægri.
Gjöf en ekki styrkur
Við viljum að fólk líti á þessa aðstoð sem gjöf, margir sem leita til okkar tala um að verið sé að betla. Sporin eru þung hjá ansi mörgum sem leita til okkar, það er bara þannig. Við segjum að okkur sem stöndum að þessu verkefni sé gefin gjöf, sem við komum áfram til þeirra sem eru hjálpar þurfi. Kortið er sem sagt gjöf, þannig að hægt sé að halda aðeins betri jól.