108. þáttur 28. nóvember 2013
Að heilsast og kveðjast
Í Ljóðmælum Páls J. Árdals [1857-1930], fyrrum skólastjóra Barnaskóla Akureyrar, er að finna stöku, sem hann kallar Sögu lífsins og hljóðar þannig:
Að hryggjast og gleðjast
hér um fáa daga,
að heilsast og kveðjast,
það er lífsins saga.
Þetta eru orð að sönnu. Lífið hefur sannarlega upp á margt að bjóða, þar skiptast á skin og skúrir, við hryggjumst og við gleðjumst, og við erum sífellt að heilsast og kveðjast. En við heilsumst og kveðjumst með mismunandi hætti, allt eftir því hver við erum, hvern við erum að kveðja - eða heilsa - og hvar við heilsumst og kveðjumst. Sóknarprestinum eða sýslumanninum er heilsað á annað hátt en gömlum vini og við heilsum fólki á opinberum tónleikum í Hofi á annan hátt en á vinnustað okkar eða heima hjá okkur.
Þá hafa orðið miklar breytingar á þessum kurteisisvenjum í gegnum tíðina - að ekki sé talað um breytingar í þúsund ár. Sem dæm mál taka kveðjuávarp völvunnar í Völuspá, einu mikilfengslegasta kvæði sem varðveist hefur á íslenska tungu, sem hefst með orðunum:
Hljóðs bið eg
allar helgar kindir,
meiri og minni
mögu Heimdallar.
Höfundur Völuspár lætur völvuna ávarpa allan heiminn, guði og menn, með því að biðja sér hljóðs - kveðja sér hljóðs, eins og sagt er í hátíðlegu máli þegar menn vilja fá orðið. Í Íslendingasögum er sögnin kveðja notuð þegar komið er í hús, eins og lesa má í Egils sögu: Síðan gengu þeir inn. Gekk Arinbjörn fyrir konung og kvaddi hann. Nú segðum við væntanlega: Síðan gengu þeir inn. Gekk Arinbjörn fyrir konung og heilsaði honum. Í nútíðarmáli notum við sögnina kveðja hins vegar eingöngu um það þegar haldið er á braut - þegar kvatt er, eins og athugull lesandi veit.
Gömlu íslensku kveðjuorðin tengjast flest kristinni trú, eins og fleira í menningu okkar. Lengi var sagt: Komdu sæl eða Komdu sæl og blessuð, þegar komið var, og Vertu sæll eða Vertu sæll og blessaður. Einnig var sagt: Guð veri með þér eða Guð gefi þér góðan dag og ef skilað var kveðju og sagt: Hann Jón bað að heilsa þér svaraði fólk: Guð blessi hann. Að baki þessum gömlu kveðjuorðum liggja óskir um blessun og velfarnað. Gömlu kveðjuorðin voru síðan stytt og fólk sagði aðeins: Sæl eða Blessaður eða menn sögu aðeins Bless. Nú eru algengustu kveðjuorðin í íslensku máli: Bæ eða OK, bæ. Vegurinn er því orðinn langur frá Völuspá:
Hljóðs bið eg
allar helgar kindir,
meiri og minni
mögu Heimdallar.
Tryggvi Gíslason