102. þáttur 17. október 2013
Á dögunum var viðtal við Stellu Stefánsdóttur ríkustu konu Íslands, sem varð níræð og hefur eignast fleiri afkomendur en nokkur annar Íslendingur. Í viðtalinu sagði barnabarn hennar, að nafnið hæfði ömmu sinni vel, af því að Stella merkti stjarna og hún amma er alger stjarna.
Í hugum margra skiptir merking skírnarnafna miklu, enda velja foreldrar oft barni sínu nafn sem á að færa því hamingju. Því hefur einnig verið trúað að nafni fylgdu eiginleikar, eins og í dæminu hér að framan. Á Íslandi hefur nafgiftarvenja lengi verið bundin því að gefa barni nöfn afa og ömmu eða annars nákomins ættingja. Þannig hafa sömu nöfn haldist í ættum mann fram af manni.
Undanfarna áratugi hefur það hins vegar færst í vöxt að foreldar gefi börnum sínum nöfn sem eru í tísku, jafnvel tvö nöfn sem fyrrum var fátítt. Til að mynda eru meðal Íslendinga í manntalinu 1703 aðeins ein systkin sem hétu fleiri en einu nafni, þau Axel Friðrik Jónsson, bóndi á Hömrum í Grímsnesi, og Sesselja Kristín Jónsdóttir, umboðsstúlka í Saurbæ á Kjalarnesi. Móðir þeirra var dönsk og höfðu foreldrarnir búið í Danmörku um hríð og Axel Friðrik og Sesselja Kristín að líkindum fædd í Danmörku.
Eins fram kom í fyrra þætti eru tíu algengustu eiginnöfn kvenna: Guðrún, Anna, Sigríður, Kristín, Margrét, Helga, Sigrún, Ingibjörg, Jóhanna og María. Nafnið Guðrún hefur öldum saman verið algengasta kvenmannsnafn á landinu. Í manntalinu 1703 báru 5410 konur nafnið af þeim liðlega 25 þúsund konum, sem þá voru í landinu, eða meira en fimmta hver koma. Nafnið kemur víða fyrir í fornum heimildum. Guðrún Gjúkadóttir er kunn úr Völsungasögu og söguljóðum Eddukvæða og bjó yfir heitum ástríðum. Ein eftirminnilegasta persóna Íslendingasagna er Guðrún Ósvífursdóttir sem var kvenna vænst á Íslandi, bæði að ásjónu og vitsmunum, kurteis svo að í þann tíma þóttu allt barnavípur er aðrar konur höfðu í skarti hjá henni, allra kvenna best orði farin og örlynd kona og sagðist hafa verið þeim verst er hún unni mest. Eftir Guðrúnu Ósvífursdóttur og þeim nöfnum hafa margar stúlkur verið nefndar á Íslandi.
Fyrri hluti Guðrúnar nafnsins er væntanlega sama orðið og guð og síðari hlutinn, rún, merkir leyndardómur, leyndarmál eða jafnvel trúnaðarvinur. Merkings nafnsins gæti verið leyndarmál guðs, guðlegur leyndardómur eða trúnaðarvinur guðanna ellegar jafnvel eftirlæti guðanna. Hugsanlegt er einnig að fyrri hluti orðsins sé skyldur orðinu gunnur í merkingunni orrusta og nafnið merki sú sem hefur dálæti á orrustu ellegar sú sem þekkir orrustuna og Guðrúnar nafnið því upphaflega verið valkyrjuheiti.
Nafnið Sigríður hefur lengi verið eitt algengasta kvenmannsnafn á Íslandi og er gamalt í málinu, kemur fyrir í Landnámu, Íslendingasögum og Fornaldarsögum Norðurlanda svo og í Sturlungu. Upphaflega mun nafnið hafa verið Sigfríður. Fyrri hluti orðsins er talinn skyldur orðinu sigur. Seinni hlutinn er skyldur lýsingarorðinu fríður: fallegur, góður svo og sögnunum fríða, sem merkir gera fagurt, og sögninni frjá elska. Sigríður eða Sigfríður gæti því upphaflega merkt sú sem elskar frið og nafnið andstæða við nafnið Guðrún.
Tryggvi Gíslason