Byrjaði að sparka bolta 4 ára

Kayla Grimsley og Kristina Corona undirbúa æfingu hjá meistaraflokki kvenna. Myndi/epe
Kayla Grimsley og Kristina Corona undirbúa æfingu hjá meistaraflokki kvenna. Myndi/epe

Kayla Grimsley er 27 ára knattspyrnukona frá Flórída í Bandaríkjunum. Hún kom fyrst til Íslands árið 2012 þegar hún samdi við Þór/KA og lék með liðinu í efstu deild kvenna í fjögur ár. Fyrsta tímabilið hennar með Akureyrarliðinu skilaði Íslandsmeistaratitlinum í hús, næstu þrjú tímabilin varð fjórða sætið niðurstaðan. Öll árin lék hún undir stjórn Jóhanns Kristins Gunnarssonar sem nú þjálfar meistaraflokk karla hjá Völsungi. Það er líka fyrir tilstilli hans að Kayla er nú spilandi þjálfari kvennaliðs Völsungs.

Kayla sagði það ekki hafa hvarlað að sér á sínum tíma að hún ætti það eftir að spila fótbolta á Íslandi. „Ég spilaði í háskólaboltanum heima í Bandaríkjunum og var með umboðsmann sem vann með liðum í fleiri löndum,“ sagði hún og bætti við að á sínum tíma hafi hún haft nokkra valkosti en á endanum kastaði hún upp peningi og það hafi ráðið því að hún kom til Íslands. „Ég bjóst bara við því að vera hér í eitt ár en ég var svo ánægð hérna að ég ákvað að koma aftur og dvelja hér í fjögur ný ár.“

Fékk fjölskylduna með í boltann

Kayla er yngst af fjórum systkinum og í fjölskyldu hennar hafa ætíð verið stundaðar íþróttir af miklu kappi og einn bræðra hennar spilaði amerískan fótbolta. Það var þó engin þekking eða áhugi á knattspyrnu fyrr en Kayla fór að sparka bolta fjögurra ára gömul. „Ég byrjaði bara að leika mér með bolta með öðrum krökkum og spurði mömmu hvort ég mætti byrja að æfa. Til að byrja með vildi hún ekki leyfa mér það. Síðan óx ég og blómstraði, í kjölfarið fóru hin systkini mín að spila líka og að lokum tókst mér að fá alla fjölskylduna í fótboltann með mér. Núna er pabbi sennilega fótboltakóngurinn, hann veit allt um öll lið í helstu deildum. Ég býst við að ég hafi ekki komið úr fótboltafjölskyldu heldur hafi ég búið hana til,“ segir hún og hlær

Viðtalið í heild sinni má nálgast í prentútgáfu Skarps.

- Skarpur, 6. júní 2017

Nýjast