„Byltingarkennd breyting við fjármögnun“
Klínísk starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri verður frá 1. janúar næstkomandi fjármögnuð í samræmi við umfang veittrar þjónustu þar sem byggt er á DRG; alþjóðlegu flokkunarkerfi sjúkdóma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.
Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri sjúkrahússins á Akureyri og María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands undirrituðu samninginn á Akureyri í gær.
„Þetta er sambærilegur samningur og gerður var um fjármögnun Landspítala í haust og er byltingarkennd breyting á þeirri aðferðafræði sem beitt verður við fjármögnun þessarar mikilvægu heilbrigðisþjónustu. Ég er sannfærður um að þetta muni styrkja sjúkrahúsin og bæta alla ákvarðanatöku um úthlutun fjármuna og nýtingu þeirra, hvort sem við horfum til fjárveitingarvaldsins eða stofnananna sjálfra“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sem staðfesti samninginn að lokinni undirritun hans.
Ráðherra fundaði við þetta tækifæri með stjórnendum sjúkrahússins og hitti einnig teymið sem vinnur að innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar við SAk.