Byggja á 60-70 íbúðir við Drottningarbraut
Tillaga að skipulagsbreytingu vegna uppbyggingar syðst á Drottningarbrautarreit hefur verið auglýst. Stefnt er að því að byggja 60-70 nýjar íbúðir á svæðinu, auk íbúðahótels með 16-20 íbúðum og verslunar- og þjónustustarfsemi á neðstu hæð. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar. Breytingin nær til Hafnarstrætis 80 og 82 og Austurbrúar 10-12.
Samkvæmt núgildandi skipulagi er gert ráð fyrir stóru hóteli á svæðinu en lagt er til breyta því og fjölga íbúðum í staðinn. Gert er ráð fyrir að aukinni hámarkshæð húsa við Austurbrú. Lagt er til að fyrirhuguð viðbygging við Hafnarstræti 82 verði sunnan við húsið en þannig myndast torg að norðanverðu sem tengir Hafnarstræti inn í nýju byggðina.
Gatan á milli Hafnarstrætis 80 og Austurbrúar 10-12 verði felld niður og í staðinn verður gönguleið og garðar milli húsa. Markmiðið er að reiturinn verði til þess að styrkja stöðu miðbæjarins sem þungamiðju menningar, verslunar og þjónustu. Lögð er áhersla á að yfirbragð nýbygginga falli vel að núverandi byggð og bæjarmynd.