13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Byggingavöruverslunin Heimamenn á Húsavík opnaði í dag
Verslunin Heimamenn opnaði í dag, fimmtudag á Húsavík. Heimamenn er ný byggingavöruverslun þar sem seldar verða allar helstu byggingavörur og verkfæri, ásamt málningu, hreinlætistækjum og öðru sem tengist viðhaldi og nýbyggingum. Þá hefur Karl Hjálmarsson flutt umboð sitt fyrir Símann í húsakynni Heimamanna. Þar sem verða á boðstólnum ýmis snjall og raftæki ásamt þjónustu fyrir áskriftir Símans.
Mikil óánægja greip um sig í bænum í kjölfar frétta um að Húsasmiðjan hyggðist loka verslun sinni á Húsavík en skellt var í lás nú um áramót eins og greint hefur verið frá. Nokkur verktakafyrirtæki á Húsavík tóku höndum saman, stofnuðu félagið Heimamenn ehf. og hafa nú opnað nýja verslun að Vallholtsvegi 8 þar sem Byggingavörudeild KÞ, KÞ Smiðjan og Húsasmiðjan hafa verið með rekstur áður.
Það var ys og þys í búðinni nú rétt fyrir opnun klukkan 13 þegar blaðamaður leit við og margar hendurnar sem voru að leggja loka hönd á verkefnið fyrir opnun.
Brynjar T. Baldursson framkvæmdastjóri félagsins mátti varla vera að því að ræða við blaðamann en sagðist þó vera mjög spenntur fyrir opnuninni, „Þetta er búið að vera ánægjulegt verkefni og það verður gaman að sjá afraksturinn þegar við opnum,“ sagði hann. Fyrirtækin sem standa að Heimamönnum eru; Val ehf., Steinsteypir ehf., Vermir sf., Trésmiðjan Rein ehf. og Bæjarprýði ehf.