13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Búið að panta nýjan snjótroðara fyrir Kjarnaskóg
Vikublaðið hefur áður greint frá því að Skógræktarfélag Eyfirðinga safnar nú fyrir nýjum snjótroðara fyrir Kjarnaskóg. „Skógurinn er risastór lýðheilsumiðstöð, opin almenningi allt árið án endurgjalds. Í venjulegum norðlenskum snjóavetri eru stígar og slóðir ófærar frá hausti til vors og vel búinn snjótroðari því lykiltæki fyrir félagið svo þetta mikilvæga mannvirki nýtist til fulls fyrir samfélagið,“ sagði Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins við Vikublaðið fyrir skömmu.
Sveitarfélögin á svæðinu, einstaklingar og fyrirtæki hafa lagt söfnuninni lið en búið er að panta snjótroðara sem kostar 35 milljónir. Ingólfur segir söfnunina á lokametrunum.
Frá því í gær hafa fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar á Eyjafjarðarsvæðinu lagt söfnuninni lið. Finnur Aðalbjörnsson verktaki á Akureyri reið á vaðið í gær og tilkynnti á Facebook að hann hefði lagt sitt af mörkum og hvatti aðra til að gera slíkt hið sama. „Ég var að styrkja snjótroðarasöfnun Skógræktarfélagsins fyrir Kjarnaskóg, algert rugl að þau sjái um útivist í heilu byggðarlagi og oft í sjálfboðavinnu á 40 ára gömlu handónýtu drasli. Ég væri allavega löngu farinn á hausinn ef mín tæki væru svona. Þau eru á lokasprettinum, búin að fá rífandi stuðning hjá einstaklingum og sveitarfélögunum í firðinum og biðla nú til fyrirtækja að klára dæmið, margt smátt gerir eitt stórt. Fyrirtæki á Akureyri - koma svo, stöndum saman varðandi þessa ómetanlegu paradís sem Kjarnaskógur er,“ ritaði Finnur á fjasbókina. Ekki stóð viðbrögðum en fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki hafa farið að fordæmi Finns.
Ingólfur hjá Kjarnaskógi segir í samtali við Vikublaðið að söfnunin sé á lokametrunum. „Bara í gær eftir að Finnur lagði sitt fram þá eru komnar sex milljónir inn á söfnunarreikninginn. Staðan er þannig að það voru komnar 32 milljónir í morgun og ég veit að það er meira í pípunum. Þannig að þetta er alveg að detta yfir,“ segir hann og bætir við að það sé ánægjulegt að sjá hvernig samfélagið hefur tekið við sér.
Búið er að leggja inn pöntun í nýjan snjótroðara sem er væntanlegur á næsta ári. „Ég veit ekki alveg hvenær nákvæmlega, það er talsverður afgreiðslutími á svona tækjum. Það er ekki víst að hann nýtist mikið í vetur en þetta verður þvílík bylting þegar hann kemur,“ segir Ingólfur.
Söfnunarreikningur 0302-26-193000 kt:600269-4299
Fréttin hefur verið uppfærð með eftirfarandi upplýsingum af vefsíðu Samherja:
Samherjasjóðurinn styrkti í dag söfnun Skógræktarfélags Eyfirðinga á nýjum snjótroðara, sem ætlað er að þjónusta útivistarfólk sem heimsækir Kjarnaskóg við Akureyri.
Samherjasjóðurinn leggur til 3.000.000 krónur í söfnunina en auk þess mun sjóðurinn styrkja daglegan rekstur troðarans með 1.000.000 króna fjárframlagi.