20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
BSE fagnar breytingum á búvörulögum sem miða að hagræðingu hjá afurðastöðvum
Eyfirskir bændur fagna þeim breytingum sem gerðar voru á búvörulögum nýverið þar sem afurðastöðvum í kjöti er veitt heimild til samvinnu og sameiningar til að ná fram hagræðingu og lækkun vinnslukostnaðar að því er fram kemur í samþykkt á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar.
Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri BSE segir að slíkt fyrirkomulag ætti að leiða til lægri kostnaðar á vöruverði, neytendum til hagsbóta. Víða hafi komið fram gagnrýni á mikinn vinnslukostnað afurðastöðva í kjöti sem skapast að miklu leyti vegna smæðar íslenska markaðarins og á stuttum nýtingartíma sauðfjársláturhúsa, auk þess sem launakostnaður er hár ef miðað er við evrópskar vinnslur.
Ógnin starfar af innflutningi
„Við erum ósköp lítil og smá hér á Íslandi sem gerir að verkum að við erum engan vegin samkeppnishæf þegar kemur að verðlagi. Okkar helsta ógn í þessum efnum starfar af innflutningi, ekki því að afurðastöðvar hér á landi séu í mikilli samkeppni hver við aðra,” segir Sigurgeir. Því sé mikilvægt að leita allra leiða til að lækka vinnslukostnað í íslenskum kjötvinnslum. Þar er meiri hagræðing á grunni samvinnu og verkaskiptingar afgerandi þáttur.
Í skýrslu sem gerð var af Deloitte fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið árið 2021, kemur fram að hægt sé að ná fram hagræði með aukinni samvinnu og verkaskiptingu í kjötvinnslu sem nemur 0,9-1,5 milljörðum á ársgrundvelli.
„Tollasamningar sem Ísland hefur gert við önnur ríki og ríkjabandalög, auk breytinga á fyrirkomulagi við útboð tollkvóta hefur sett mikinn þrýsting til lækkunar á afurðaverði til bænda. Við því er nauðsynlegt að bregðast með breytingum á starfsumhverfi landbúnaðarins eins og gert var með framangreindum breytingum á búvörulögum,” segir í ályktun aðalfundarins.