Brýn þörf á fleiri dagforeldrum á Akureyri
mth@vikubladid.is
Brýn þörf er á að fjölga dagforeldrum á Akureyri og hefur vinna við að móta tillögur um á hvern hátt Akureyrarbær getur brúað það bil sem er á milli þess að fæðingarorlofi sleppir og þar til leikskólapláss er í boði fyrir börn verið sett í forgang. Tillögurnar eiga bæði að miða við skemmri og lengri tíma.
Eva Hrund Einarsdóttir formaður Fræðslu- og lýðsheilsuráðs Akureyrarbæjar segir að þegar fæðingarorlof var lengt í 12 mánuði hófst vinna við að leita leiða til að innrita 12 mánaða gömul börn á leikskóla Akureyrarbæjar. Í fyrra haust voru 12 mánaða börn í fyrsta skipti innrituð á leikskóla bæjarins, þ.e. sá hópur sem hafði náði eins árs aldri í ágúst það ár. „Það verkefni hefur gengið vonum framar og ekki síst fyrir góða vinnu okkar starfsfólks,“ segir hún.
Eva segir að í kjölfar þessara breytinga hafi dagforeldrum á Akureyri fækkað úr 29 í 13. „Það gerir að verkum að nú er orðið erfiðara fyrir foreldra sem eiga börn sem ná 12 mánaða aldri eftir inntökudagsetningar að fá dagvistunarpláss. Þessi sami vandi er uppi í mörgum öðrum sveitarfélögum og hefur verið bókað hjá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að mikilvægt sé að ríkið taki þátt í þessum málum eigi leikskóli að loknu fæðingarorlofi að verða raunhæfur möguleiki.“
Tillögur til að laða fleiri að og halda þeim sem fyrir eru
Bæjarstjórn á Akureyri vilji reyna hvað hægt er að bregðast við þessari þróun og hefur fræðslu- og lýðheilsuráð sótt um aukið fjármagn í dagforeldrakerfið og segir Eva það bæði til að laða að fleiri dagforeldra og eins til að halda þeim sem fyrir eru. „Okkar tillögur snúast um að bjóða upp á aðstöðugreiðslu fyrir dagforeldra, stuðning í formi búnaðar til útláns og tímabundnar launatryggingar. Þá hafa allir leikskólastjórar skoðað aðstæður hjá sér í því skyni hvort hægt sé að koma fleiri börnum að,“ segir Eva en nýlega voru fjögur börn innrituð á einn skólann og vonast til þess að hægt verði að bæta örfáum við til viðbótar.
„Framtíðarsýnin er auðvitað sú að reglulega yfir árið verði hægt að innrita börn sem náð hafa 12 mánaða aldri inn í leikskólana, þó svo húsakostur þeirra rúmi það ekki við núverandi aðstæður, slíkt þarf að vinna í nánu samstarfi við leikskólastjóra. Við erum líka að leita fleiri leiða til að bregðast við stöðunni því við gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að foreldrar komist út á vinnumarkað að loknu fæðingarorlofi á sama tími og hugað er að hagsmunum barnanna,“ segir Eva.