Brothætt staða á SAk vegna Covid
Staðan hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) í fjórðu bylgju kórónuveirunnar sem nú geisar yfir er almennt þokkaleg, en brothætt í ljósi þess að enn er sumareyfistími. „Starfsfólk er í sumarfríi og því má lítið út af bregða,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, nýskipaður forstjóri á SAk. Enginn Covid-19 smitaður hefur þurft að leggjast inn á sjúkrahúsið en Hildigunnur segir starfsfólk vera á varðbergi varðandi sjúklinga sem til þeirra leita og ákveðið viðbragð í gangi komi smit upp.
„Það má því segja að við séum í startholunum og munum opna legudeildina um leið og þörf krefur. Covid-göngudeildin hefur verið virkjuð og viðbragð til staðar með móttöku Covid-smitaðra sem þurfa að leita á göngudeild,“ segir Hildigunnur.
Aukið álag á bráðamóttöku
Faraldurinn veldur auknu álagi á bráðamóttöku SAk og er einstaklingar sem leita á deildina með vandamál sem ekki eru metin bráð geta átt von á því að verða vísað í önnur úrræði. Þetta kemur fram á vef SAk. Aðstandendum er nú óheimilt að fylgja skjólstæðingi inn á deildina og að dvelja á biðstofu bráðamóttöku. Undantekningar eru gerðar fyrir börn og þá skjólstæðinga sem vegna fötlunar þurfa fylgd aðstandanda, eða ef sjúkdómsástand eða kringumstæður krefjast nærveru aðtandanda.