13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Breytum til fyrra horfs ef þetta gengur ekki upp
Umræður um kattahald í bænum fóru á flug í liðinni viku eftir að bæjarstjórn samþykkti endurskoðun á reglugerð sem kveður á um að lausaganga þeirra verði bönnuð frá og með áramótum 2025. Hlynur Jóhannsson bæjarfulltrúi Miðflokksins var einn þeirra sem studdi þá ákvörðun. Allir bæjarfulltrúar voru fylgjandi hertari reglum um lausagöngu, en mismikið.
„Að mínu mati er tilgangslaust að banna útivist katta t.d. yfir nætur, mér vitanlega er enginn köttur sem hlýðir fyrirmælum af því tagi,“ segir Hlynur. Hann segir mikinn hita í umræðunum að venju og sýnist sitt hverjum. Sjálfur hafi hann fráleitt nokkuð á móti köttum, en telur að meirihluti sé fyrir því í bænum að banna lausagöngu þeirra. Segir hann ekki ósanngjarnt að þeir kettir sem skráðir voru þegar ákvörðun var tekin um breytingu fengju að ljúka sínum líftíma með sömu reglum og í gildi eru nú.
Vísar hann m.a. í skoðanakönnun sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri gerði vorið 2018, en niðurstöður þeirrar könnunar leiddu það í ljós, tæplega 43% voru sammála því að setja slíkt bann og tæplega 15% frekar sammála. Þá voru 28% ósammála og 15% svöruðu hvorki né. Kattahald er algjörlega bannað í Grímsey og lausaganga katta bönnuð í Hrísey.
„Að mínu mati er ekkert heilagt í þessum efnum, ef í ljós kemur síðar að þessi ákvörðun um lausagöngubannið gengur ekki upp þá er ekki neitt mál að bakka og breyta til fyrra horfs,“ segir Hlynur. „Ég skil vel þessi miklu viðbrögð, menn verða alltaf fúlir þegar þrengt er að þeim eins og við sjáum nú í kóvidfaraldrinum“
/MÞÞ