Breyttu heiminum bréf til bjargar lífi
Bréf þín bera árangur. Taktu þátt í bréfamaraþoni Amnesty International og veittu þeim von, sem búa við mannréttindabrot um heim allan.
Ef þú heldur að það sé gamaldags að skrifa bréf og tilgangslaust að setja blek á blað á tímum Facebook og Twitter, kynntu þér þá sögu Birtukan Mideksa sem þakkar þátttakendum í bréfamaraþoni Amnesty International að þeir þurfa ekki lengur að þola gróf mannréttindabrot stjórnvalda.
Fleiri þurfa nú hjálpar þinnar við. Hjálpaðu til. Taktu þátt í bréfamaraþoni Amnesty stærsta mannréttindaviðburði í heimi. Þar geturðu brugðist við vegna 12 áríðandi mála, sem þurfa á athygli þinni að halda.
Það hefur aldrei verið einfaldara að taka þátt. Tilbúin bréf til stjórnvalda verða á staðnum. Þú getur einnig sent kort til fórnarlamba mannréttindabrota.
Í ár tekur Íslandsdeild Amnesty International þátt í bréfamaraþoninu í ellefta sinn og fer það fram á 14 stöðum á landinu.
Á Akureyri fer bréfamaraþonið fram í Pennanum Eymundsson og Bláu Könnunni, 7. desember frá kl. 14 til 17.
Við vonum að enginn láti sitt eftir liggja á aðventunni í baráttunni fyrir betri heimi.
Þeir sem ekki komast á staðinn geta tekið þátt á netinu. Farðu á www.netakall.is og taktu þátt!
Á síðasta ári tóku 77 lönd þátt í bréfamaraþoninu og var slegið met í fjölda bréfa, korta og sms-skilaboða sem send voru stjórnvöldum. Hátt í 1.9 milljónir slíkra aðgerða voru teknar allt frá Íslandi til Indlands, og Barbados til Búrkína Fasó.
Breyttu heiminum. Taktu þátt.
Bjarni E. Guðleifsson, Akureyri.