Börnin þyrpast í grunnskólana á morgun
Heldur færri börn verða í grunnskólum Akureyrarbæjar á komandi skólaári en undanfarin ár. Þau verða alls 2680 og er um það bil 35 til 40 færri en var í fyrra. Sá árgangur sem er að hefja sína skólagöngu í fyrsta bekk er fámennari en oftast nær. Þá verða um 900 börn í leikskólum bæjarins í vetur.
Karl Frímansson sviðsstjóri fræðslusviðs segir að ekki verði skólahald í Grímsey í vetur, annað árið í röð en ekkert barn er þar á grunnskólaaldri. Karl segir engar ákvarðanir um að leggja skólahald af í Grímsey. Þá eru 14 börn í grunnskólanum í Hrísey og ekkert í leikskóla, en eitt barn er þar á elsta leikskólaári og fær að fylgja yngstu grunnskólabörnunum.
Endurbætt álma í Glerárskóla
Mikið hefur verið að gerast í húsnæðismálum grunnskólanna í sumar. Þannig er nú í vikunni verið að ljúka við gagngerar endurbætur á einni álmu Glerárskóla og var önnur tekin í notkun eftir yfirhalningu í fyrrahaust. Nánast er um að ræða nýtt húsnæði í þessum tveimur álmum eftir endurbyggingu.
Þá er búið að taka B álmu Lundarskóla í gegn frá grunni og þar verða nemendur í fyrsta til sjötta bekk við nám í vetur. Mælingar verða gerða á loftgæðum áður en skólahald hefst.
Eldri nemendur, þeir sem eru í sjöunda til tíunda bekk verða í vetur við nám í Rósenborg og þar hefur aðstaða verið bætt til að skólahald geti farið þar fram. Ekki stendur til að vera með skólaakstur frá Lundarskóla í Rósenborg að svo stöddu en Karl segir að ef aðstæður breytist og það sé talið hentugra en að nemendur komi sér sjálfir í skólann verði breyting gerð þar á.