Borað í samtímasárið

Leikhópurinn Umskiptingar.
Leikhópurinn Umskiptingar.

Það var stemming og spenna í loftinu þegar áhorfendur biðu þess að frumsýning leikverksins „Framhjá rauða húsinu og niður stigann” hæfist í Hlöðunni, Litla-Garði. Á sviðinu voru þrír leikarar,  í óræðum og að því er virtist ótengdum, hlutverkum. Tónlistin hljómaði framandi og  sviðsmyndin að baki þeim, hillur fullar af dóti og gömlum  tækjum, gat verið nánast hvað sem var;  bílskúr fullur af  drasli, neðanjarðarbyrgi eða tilraunastofa. Þegar tónlistin þagnaði hófst leikurinn með einræðu Katrínar sem leikin er af Birnu Pétursdóttur.

Katrín segir farir sínar ekki sléttar og augljóst að lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Við könnumst við margt  úr fari hennar en ekki síður þau vandamál/þá sjálfsmyndarkreppu sem hún hefur staðið frammi fyrir sem efnileg ung kona sem bíður þess að heimurinn uppgötvi hana. Afneitun virðist þó efst á blaði í „játningum” Katrínar sem deilir með áhorfendum sigrum sínum en þó aðallega ósigrum í lífi sem er óhrópandi andstöðu við það glansmyndalíf sem lesa má um og fylgjast með í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Birna Pétursdóttir gerði hlutverki  Katrínar frábær skil í bæði gleði og örvæntingu og ljóst að Akureyringar hafa eignast leikhúsmanneskju sem líkleg er til mikilla verka í framtíðinni.

Kastljósið beindist næst að Hildi sem leikin er af Sesselíu Ólafsdóttur. Hildur birtist sem  andstæða Katrínar og gerði sitt til að sannfæra okkur um að lífið gæti varla verið betra og að hún byggi í besta heimi allra heima eða því sem næst. Hildur kynnir sig sem grunnskólakennara og lífsstílsbloggara sem sinnir að auki manni og börnum af mikilli samviskusemi. Fljótt koma þó sprungur í slétt og fellt yfirborðið. Myndin af fyrirmyndarkennara, móður og eiginkonu lendir í þeytivindu lífsins og áhorfendur sveiflast með þegar hún virðist við það að missa tökin á tilverunni. Akureyringar og annað áhugafólk um leiklist hefur á liðnum misserum fylgst með því hvernig Sesselía hefur stimplað sig inn í íslenskt leikhúslíf með afgerandi hætti. Í þessu verki sýnir hún okkur nýjar hliðar á sér bæði sem leikritahöfundur og leikari, fær um að túlka breiðan tilfinningaskala.

Þá var röðin komin að Halldóri sem leikinn er af Vilhjálmi B. Bragasyni. Eftir því sem virtist þá er Halldór geðlæknir að undirbúa ráðstefnuna „Geðveikt gaman”. Halldór virtist óneitanlega sérkennilegur og í fyrstu ekki alveg ljóst hvort og þá hvernig hann tengdist hinum persónunum tveimur.  Sumt í fari læknisins minnti  á þekkta einstaklinga úr íslensku samfélagi, ekki síst þegar hann  lýsir afstöðu sinni til eigin sérgreinar og sjúklinga sinna. Vilhjálmur sýndi að hann er skarpur  samfélagsrýnir og afbragðs leikari. Hlutur hans í verkinu byggir klárlega á heilmikilli stúdíu á atferli okkar Íslendinga og næmri tilfinningu fyrir því hversu langt megi ganga í að sýna leikhúsgestum í spegil samtímans. Sesselía og Birna sýndu ekki síður góð tök samtímarýni og drógu upp sterkar myndir af litríkum persónum.

Á meðan á sýningunni stóð áttum við eftir að sannfærast æ betur um að ekki var allt sem sýndist í upphafi. Það eina sem hægt var að ganga að sem vísu var að þarna horfðum við á túlkun á íslenskum raunveruleika í meðförum þriggja frábærra leikara. Verkið var bæði fyndið og hádramatískt á köflum og leikurunum tókst að halda áhorfendum við efnið þann klukkutíma sem sýningin stóð yfir.

Leikritið er upphaflega skrifað sem þrír einleikir og vann hver leikari sinn texta sem síðan var felldur í nokkuð heildstætt leikverk, þar sem einþáttungarnar mætast í samþættri senu undir lokin. Viðbrögð áhorfenda sýndu svo ekki var um villst að tilraunin lukkaðist og það svo um munar. Akureyri hefur með þessari sýningu eignast nýjan atvinnuleikhóp sem vonandi er kominn til að vera!

-Ágúst Þór Árnason

 

Nýjast