13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Bólusetningarátak hefst á fimmtudag
Bólusetningarátak hefst á Slökkvistöðinni á Akureyri næstkomandi fimmtudag, 18. nóvember og verður bólusett alls fjóra fimmtudaga frá kl. 13 til 15. Dagsetningar sem um er að ræða eru auk næsta fimmtudags, dagarnir 25. nóvember, 9. desember og 16. desember. Þetta eru einu dagarnir sem bólusetningu er í boði fram til áramóta
Öllum 16 ára og eldri býðst örvunarskammtur þegar 6 mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetningu. Bólusettir einstaklingar sem eru yngri en 70 ára býðst örvunarskammtur þegar 6 mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetningu. Bólusettir einstaklingar 70 ára og eldri geta fengið örvunarskammt þegar 3 mánuðir hafa liðið frá grunnbólusetningu.
Bólusett verður með bóluefni frá Pfizer, óháð því bóluefni sem notað var við grunnbólusetningu. Þessar upplýsingar má finna á vefsíðu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.
Þar kemur einnig fram að 14 dagar þurfa að líða milli inflúensubólusetningar og bólusetningar gegn COVID-19.
Þau sem eru búin með grunnbólusetningu og hafa fengið Covid eiga að bíða þangað til frekari fyrirmæli berast.
Send verða út boð í örvunarskammta. Þeir sem ekki hafa hafið bólusetningar eða ekki getað nýtt sér fyrri boð er velkomið að koma á auglýstum opnunartíma á Akureyri. Ekki er þörf á að hafa strikamerki með í för, bara mæta á staðinn. Börn sem hafa náð 12 ára aldri eru velkomin í fylgd forráðamanna.