Bolluvendir og ljósmyndir á Minjasafninu á Akureyri
Á morgun laugardag, gefst ungum sem öldnum kostur á að mæta á Minjasafnið á Akureyri til að búa sér til barefli sem nýtist vel til að innheimta góðgæti í formi bolla með rjóma. Það eru Stoðvinir Minjasafnsins sem hafa veg og vanda að bolluvandargerðinni. Fyrir þá sem ekki hafa hug á bolluvandargerð er tilvalið að skoða hina margrómuðu ljósmyndasýningu Ljósmyndari Mývetninga Mannlífsljósmyndir Bárðar Sigurðssonar frá upphafi 20. aldar. Það er enn meiri ástæða til að koma í heimsókn því Hörður Geirsson, safnvörður, verður með ljósmyndaleiðsögn á morgun. Það er því tilvalið fyrir fjölskyldur að sameinast á safninu á laugardaginn 18. febrúar kl. 14-16. Aðgangur er ókeypis. Minjasafnið er opið frá fimmtudegi til sunnudags kl. 14-16.