Blikur á lofti í ferðaþjónustu á Norðurlandi
Komandi vetur mun reyna á ferðaþjónustufyrirtækin á Norðurlandi að mati Arnheiðar Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands. Óvíst er hvort hægt verði að endurráða þá sem eru að ljúka sínum uppsagnarfresti um mánaðamótin.
Þetta kom fram í viðtali við Arnheiði á Vísir.is. Þar sagði hún að hertar aðgerðir við landamærin vegna komu ferðamanna væri mikill skellur eftir gott sumar. Ferðaþjónustan á Norðurlandi treystir mjög á að sumartekjurnar teygi sig inn í haustið svo að hægt sé að fleyta sér í gegnum veturinn sem venjulega er mjög rólegur.
„Þessar tekjur sem menn bjuggust þó við að fá í vetur eru farnar svo ég er hrædd um að það þurfi einhverjar björgunaraðgerðir núna eða þá að við sjáum fram á miklar breytingar á ferðaþjónustunni,“ sagði Arnheiður.