Björn Þorláksson ætlar á þing
„Spilltum ráðamönnum hefur heppnast að hanga á sínu með frumstæðum mótþróa, víggirtir af bjöguðum upplýsingum þar sem peningar eru nýttir til að misbeita fjölmiðlum,“ Þetta segir Björn Þorláksson, fyrrverandi fréttastjóri á Hringbraut í tilkynningu á Facebooksíðu sinni um að hann ætli í framboð til Alþingis fyrir Pírata í Norðausturkjördæmi.
Í tilkynningunni segir hann hagsmunagæslu almennings frá degi til dags á Alþingi illa sinnt. Hann segist ætla sér að vera maður fólksins. Björn segir þingframboðið ekki aðeins hafa verið ákvörðun sína og eiginkonu sinnar, heldur hafi hann fengið hvatningu og áskoranir úr ýmsum áttum til að gefa kost á sér.
Tilkynningu Björns má lesa í heild sinni hér að neðan:
Ég býð mig fram til Alþingis!
Kæri lesandi!
Ég býð mig fram til Alþingis fyrir Pírata í Norðausturkjördæmi. Sem maður fólksins.
Hinn almenni Íslendingur á sér fáar raddir, jafnt í fjölmiðlum sem og við framkvæmd stjórnmála. Allt of fáir gæta hagsmuna almennings frá degi til dags. Mig langar að slást í nýjan hóp, mig langar að kanna hvort vinnubrögðin og hugsunin sem ég hef tamið mér við skriftir og störf kunni að nýtast við stjórn samfélagsins okkar, leita tækifæra til að svara spurningum í stað þess að láta duga að spyrja þeirra. Ég hef alla tíð litið á mig sem þjón almennings í blaðamennskunni. Sú hugsun mun fylgja mér í hverju því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég hef víða sambönd og tengsl en alltaf óháður valdaklíkum og peningaöflum. Stóra kosningaloforðið er að berjast gegn spillingu. Með spillingu á ég einkum við andverðleikaklíkuböndin, misnotkun almannafjár, afslætti á opinberum gjöldum og fáheyrðan hroka og afneitun ráðamanna sem neita að axla ábyrgð, neita að víkja til hliðar þrátt fyrir augljós brot sem gera traust almennings að engu.
Eldar í þágu aukins réttlætis hafa verið kveiktir út um allt land. Ólga kraumar í fólki og dugar hvergi til sefjunar á reiði almennings að þrátt fyrir ríkisstjórnina þyrpist erlendir ferðamenn til Íslands sem aldrei fyrr og moki gulli inn í landið. Hagvöxtur, keyrður áfram af heppni, dugar hvergi til að slá á óánægju meirihluta almennings sem stendur ómengaður utan valdaflokkanna í ríkisstjórninni. Það er eins og að forráðamenn þessa lands kveiki ekki á að til eru gildi, æðri veraldlegum uppgangi. Sú krafa sem mikilvægast er að bregðast við er ákallið um endurnýjað traust milli ráðamanna og fólksins í landinu. Traustið er nálægt alkuli, sumpart vegna vondra embættisverka en sumpart vegna þess að uppgjörinu við Hrunið er ekki lokið og um það vitna Panamaskjölin. Reiði íslensku þjóðarinnar var römmuð inn á Austurvelli fyrir skemmstu þegar 22.000 manns mótmæltu því sem þá hafði komið fram.
Spilltum ráðamönnum hefur heppnast að hanga á sínu með frumstæðum mótþróa, víggirtir af bjöguðum upplýsingum þar sem peningar eru nýttir til að misbeita fjölmiðlum. Ástandið á enn eftir að versna eftir því sem nær dregur forsetakosningum og síðar alþingiskosningum. Blaðamenn finna daglega fyrir þöggunarþrýstingi frá "eigendum Íslands". Við blaðamenn finnum fyrir vaxandi ógn með hverjum deginum sem líður. Hér á landi eru blaðamenn ekki drepnir ef þeir skrifa fréttir og greinar sem valdhöfum og vondum peningaöflum hugnast illa, en ef blaðamenn tala sjálfstæðri og óttalausri röddu er þeim unbunað í öfugu hlutfalli við verðleika. Jóhannes Kr. Kristjánsson, vinur minn, var tekjulaus í átta mánuði meðan hann vann að skúbbi aldarinnar. "Haltu kjafti og vertu hress" er mantran. Fræðasamfélagið er undirokað, vísindageirinn er undirokaður, verkfræðingar þora ekki að tjá sig um umhverfismál og virkjanastefnu fyrr en daginn sem þeir fara á eftirlaun. Á fjölda opinberra stofnana, á fjölda einkarekinna vinnustaða situr hrætt fólk frá morgni til kvölds. Reynslan hefur kennt fólkinu að besta leiðin til að afla þeirra vinnulauna sem þarf til að bera þær daglegu byrðar sem fylgja stórgölluðu íslensku efnahagskerfi, sé að halda kjafti og handjárna sig við valdið. En með því að þegja, með því að láta órétt yfir okkur ganga, selja jafnvel sjálfsvirðinguna hæstbjóðanda, pissum við í skóna okkar. Það sem kann að virðast heppilegt til að gæta skammtímahagsmuna okkar, greiða kortareikninginn og það allt, getur grafið undan farsælum langtímalausnum fyrir samfélagið í heild ef við teljum sjálfgefið að fyrir fé skuli frelsinu fórnað. Að láta kúga sig er aldrei lausn og þess vegna hafa sum okkar kosið að gefast ekki upp. Með vonarneistann í brjóstinu hef ég ákveðið að bjóða mig fram til verndar almannahagsmunum á vettvangi stjórnmálanna.
Starf þingmannsins þekki ég utan frá til áratuga og vann reyndar sem þingfréttaritari um skeið. Þingmennska á það sameiginlegt með blaðamennsku að bæði störfin eru hugsuð sem þjónusta við almenning. Það þýðir að trúnaður við almannahagsmuni er æðri en hagsmunir eigenda fjölmiðla, sama á við um hagsmuni flokkseigendanna þegar kemur að pólitík. Á hvoru tveggja er mikill misbrestur, fullyrði ég.
Það er að sjálfsögðu undir atkvæðum fólksins í landinu komið hvort leiðin að nýju markmiði mínu verður að veruleika. En ég bið ekki um atkvæði þitt, það væri frekja. Ef ég fæ umboð til þingstarfa í þágu almennings dettur mér ekki heldur í hug að lofa kraftaverkum. Þvert á móti er ég fullur vanmáttar eins og svo margir aðrir Íslendingar út af ástandinu núna. Ég er þreyttur á að lifa í landi hinna ferlegu frekjupunga. En þótt ég sé svolítið lúinn neita ég að láta hræða mig til hlýðni og ég vona að þér líði eins. Ég finn í hjarta mínu að við þetta samfélag verður ekki unað að óbreyttu. Kannski er runnin upp sú stund að við tökum þær tilfinningar sem búa stríðastar og heitastar innra með okkur, búum til sameiginlegan styrk, segjum spillingunni stríð á hendur með virkari samfélagsþátttöku en nokkru sinni. Ef þú lesandi góður, treystir mér fyrir atkvæði þínu er trú mín að sameiginleg vegferð okkar kunni að bera ávöxt. Ástríða hefur keyrt mig áfram í blaðamennskunni. Ástríða myndi keyra mig áfram í þingmennskunni - ef hún mun standa mér til boða. Ég bið ekki um stuðning þinn. En ef hann er í boði verð ég þakklátur.
Ákvörðun um þingframboð er ekki bara ákvörðun okkar hjónakornanna, mín og Arndísar minnar. Síðustu daga hafa nokkrir Íslendingar úr ýmsum og ólíkum áttum sent mér tölvupósta og einkaskilaboð, margs konar brýningu um að það vanti nýja fulltrúa til að gæta hagsmuna fólksins í landinu. Keyrður áfram af réttlætishvöt blaðamannsins og löngun til að aðhafast í veröld sem sannarlega þarf að breyta til hins betra hafa áskoranir almennings um nýjar lausnir og nýtt og öðruvísi fólk inni á Alþingi orðið áleitnari. Ég mun aldrei finna svör við spurningunni hvort ég geti gagnast almenningi á vettvangi landsstjórnmála nema með því að láta á það reyna og núna er tækifærið. Einhver þarf alltaf að moka flórinn, innan þings sem utan. Sem gamall kúasmali úr norðlenskri sveit kann ég þann starfa ágætlega en ég er fæddur árið 1965, alinn upp í Mývatnssveit, sonur Þorláks Jónassonar bónda og Lilju Árelíusdóttur húsfreyju og verslunarkonu. Ég er kvæntur Arndísi Bergsdóttur doktorsnema og safnafræðingi. Ég er fyrrum bæjarlistamaður Akureyrar, ég hef búið í þremur löndum, ég starfaði í höfuðborginni í áratug en lengst af hef ég verið búsettur á Akureyri, að mestu sl. 20 ár. Ég á fullorðin börn, ung börn og fjögur barnabörn. Ég er heimilisfaðir og hef reynt að standa fyrir vitundarvakningu í því skyni að karlar brjóti niður veggi milli atvinnulífs og fjölskyldulífs. Ég skrifaði bókina Heimkomuna sem kom út árið 2009 til brýningar fyrir feður, að við látum ekki framhjá okkur fara þau stórkostlegu verðmæti sem verða til með náinni samveru foreldra og barna, ætti kynjakerfið þar aldrei að standa í vegi. Ég hef fundið mikla hamingju í föðurhlutverkinu. Heimili landsins eru lærdómssetur og skemmtistaðir í senn en mestu varðar að börnin í landinu búi á öllum tímum við gott öryggi og þar gildir miklu að fjárhagslegt öryggi sé fyrir hendi sem komi í veg fyrir stéttaskiptingu. Þeir sem eru í tengslum við eigið heimili bera að jafnaði hag fjölskyldnanna í landinu fyrir brjósti. Fjölskyldurnar og heimilin eru sameiginlegur arfur okkar, þar liggja mestu verðmætin.
Blaðamennskunni kynntist ég fyrst nítján ára gamall, haustið 1984 þegar ég hóf lausamennsku við blöð, tók myndir og skrifaði stundum stuttar klausur. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri tók við brösótt skólaganga, þar sem hugurinn flakkaði á milli ólíkra sviða. Ég gerðist atvinnutónlistarmaður, söng m.a.s. með Meat Loaf! Ég lærði hótelstjórn í Sviss, fór svo villur vega og týndi sjálfum mér um tíma. Ég þurfti að vinna í sjálfum mér og þiggja hjálp sem aðrir buðu fram. Hef allar götur síðan gengist við veikleikum mínum jafnt sem styrkleikum því hvort tveggja gerir okkur að því sem við ættum að vera, manneskjur af holdi og blóði. Ein ástæða þess að við fyrirlítum ýmsa pólitíkusa þessa dagana er að þeir birtast okkur síendurtekið sem gjammandi vélbúnaður.
Á ferilskránni eru Dagur, Tíminn, DV, Rúv, N4, 365, Akureyri vikublað, Stundin og Hringbraut og þá er ekki allt talið. Ætli þær skipti ekki tugþúsundum fréttirnar og fréttaskýringarnar sem ég telst ábyrgur fyrir á löngum ferli. En nú horfir í að maður setji punkt í blaðamennskunni. Það er þó von mín að geta áfram starfað við að setja mig inn í flókin mál fyrir hönd fólksins með það í huga að gera heiminn betri. Um leiðir til þess eru skiptar skoðanir en eitt sem ég brenn fyrir er að miðla málum milli ólíkra menningarheima. Þess vegna hlakka ég til þess tækifæris sem nú fer í hönd að vinna að félagsstarfi með ýmsum og ólíkum gerðum af Pírötum. Ég hef fengið tækifæri til að brúa bil með setu í þverpólitískum nefndum. Á vegum menntamálaráðuneytisins hef ég unnið með fagfólki að lagafrumvörpum um fjölmiðla. Ég hef veitt þinginu ráðgjöf og gefið þingmönnum ólíkra flokka álit þegar eftir því hefur verið kallað. Ég hef alla tíð lagt mitt fram til þjóðmálaumræðu og má nefna fjölda bóka sem ýmis forlög hafa gefið út eftir mig. Nokkrar birtingar eru einnig að baki í fræðiritum s.s. í Skírni. Þá er kannski allt í lagi að geta þess að utan fjölskyldulífsins veit ég fátt skemmtilegra en að spila bridge! Þeir sem vilja fræðast nánar um samfélagshugsjónirnar og umbótaviljann kynnast mér kannski best með lestri á bókinni Mannorðsmorðingjar? sem kom út árið 2015. Sú bók var afrakstur endurreisnar og nýrrar þekkingar. Ég tók BA-gráðu í þjóðfélagsfræðum frá HA árið 2012 og í beinu framhaldi MA-gráðu frá HÍ í blaðamennsku árið 2014. Lokaverkefnið mitt snerist um misnotkun efnahagslegs og pólitísks valds, hvernig ritstjórar héraðsfréttablaða upplifa óeðlilegan þrýsting frá valdhöfum sem hefur beint að gera með skrif þeirra og lífsbjargir. Aukið lagalegt regluverk og opinbera fjármuni þarf til að styrkja sjálfstæða fjölmiðlun, það er engin sanngirni í því að Rúv fái allan peninginn. Fjölmiðlar hafa miklar skyldur í samfélaginu og eitt helsta baráttumál mitt ef ég fæ tækifæri til að hrinda stefnumálum í framkvæmd innan Alþingis verður að beita mér fyrir því að aðstæður fjórða valdsins verði styrktar hér á landi.
Án átaka, án óþrifavinnu, án vakningar okkar borgaranna, án þess að tækla spillingaröflin stefnir í algjört óefni, aukna misskiptingu gæða og fulkominn trúnaðarbrest í landinu okkar sem er svo fallegt, öruggt og stórbrotið, vellauðugt af náttúruauðlindum sem aðeins fáir fá þó notið. Ísland hefur alla burði til að ala af sér öruggt, glaðvært og sæmilega efnað fólk en til að það geti orðið kann að vera að Píratar muni gegna lykilhlutverki. Ég hef allan minn blaðamannsferil starfað með fólki sem vel má kalla borgaralegri hóp en þá Pírata sem við sjáumst oftast í fjölmiðlum. Ég hef unnið mest með fólki sem hallast til miðjunnar og til hægri en Píratar eru fjölbreyttur hópur og hafa sjálfir bent á að í þeirra röðum ræði menn hvorki hægri né vinstri heldur hvort stefna skuli fram eða aftur. Ég hlakka til að kynnast Pírötum og kjósendum þeirra og mun hefja gönguna á nýliðafundi á Akureyri í kvöld. Samkvæmt reglum Pírata hér fyrir norðan verða þeir sem hyggjast hafa eitthvað með uppröðun á listann að segja að skrá sig með rafrænum hætti sem Pírata í NA-félagi samtakanna fyrir klukkan 23.59 næsta föstudagskvöld. Aðeins þeir sem hafa lögheimili í NA-kjördæmi hafa kosningarétt. Ef ég næ sæmilegu sæti í prófkjörinu (kosningin sjálf fer fram í næsta mánuði) er ég tilbúinn að bjóða mig fram sem liðsauka á landsvísu og mun næstu daga skýra meginbaráttumál. Réttlætiskennd mín rímar að mestu leyti við áherslur Pírata og sú er helsta ástæða þess að ég er Pírati í dag og hlakka til að þreifa fyrir mér á nýjum vettvangi.
Ást, friður, von og læti!
Björn Þorláksson