Bjartsýnn á framhaldið eftir faraldurinn

Farþegar frá Hollandi við lendingu á Akureyrarflugvelli.
Farþegar frá Hollandi við lendingu á Akureyrarflugvelli.

Eins og Vikublaðið fjallaði um fyrr í haust neyddist hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel til þess að aflýsa öllum flugferðum sem fyrirhugaðar voru á vegum félagsins í sumar til Akureyrar vegna Covid-19. Hins vegar er stefnt að því að flugferðir hefjist frá Hollandi í febrúar á næsta ári.

„Við höfum haldið góðu sambandi við Voigt Travel síðustu mánuði og þar á bæ er stefnan enn sú sama; að byggja upp aukna umferð beint til Akureyrar til framtíðar,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Flugklasans Air 66N, sem m.a. hefur það verkefni að efla millilandaflug um Akureyrarflugvöll, í samtali við Vikublaðið.

Búið er að setja upp flugáætlun fyrir veturinn og stefnt á 10 flug frá miðjum febrúar 2021. Hjalti bendir á að framkvæmd þessara flugferða sé hins vegar háð því að gerðar verði tilslakanir á núverandi skimunarreglum á landamærum, eða að fundin verði lausn með sérstökum ráðstöfunum heima fyrir sem geri móttöku þessara gesta mögulega, m.a. með auknum sóttvörnum og einangrun. „Flugklasinn hefur þegar hafið vinnu við að kanna hvaða möguleikar eru í stöðunni til þess að finna lausn svo af þessu geti orðið og fullur kraftur verður settur í þá vinnu næstu vikurnar,“ segir Hjalti. Hann segir að það yrði mikil innspýting inn í samfélagið að fá flugferðirnar frá Hollandi. „Þetta myndi breyta miklu og hafa gríðarleg áhrif, sérstaklega á þessum árstíma þegar lítið er um ferðalög. Þannig að þetta hefur mikið að segja, bæði fyrir mörg fyrirtæki sem fá beinar tekjur af kúnnunum og svo afleiddar tekjur.“

Hjalti Páll Þórarinsson

Bjartsýnn á framhaldið eftir faraldurinn

Flugklasinn Air 66N er samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi, sveitarfélaga, stofnana og annarra hagsmunaaðila í samfélaginu. Klasinn er leiðandi í að markaðssetja og kynna Akureyrarflugvöll sem nýjan áfangastað fyrir millilandaflug allt árið um kring með það að markmiði að fjölga ferðamönnum á Norðurlandi og lengja dvöl þeirra á svæðinu. Þrátt fyrir að ferðamannaiðnaðurinn hafi verið nánast frosinn segir Hjalti að Flugklasinn hafi ekki setið auðum höndum undanfarna mánuði. Í stað hefðbundinna verkefna hefur flugklasinn einbeitt sér að því að halda tengslum úti á mörkuðum og fylgjast með þróun mála þar. „Við erum að vinna í haginn. Planið í haust er undirbúningur fyrir ýmis verkefni og að halda lífi í þeim samböndum sem við höfum.“ Hjalti kveðst bjartsýnn fyrir hönd Norðurlands sem ákjósanlegan áfangastað þegar ferðatakmörkunum verður aflétt. „Það er alveg ljóst að áhugi erlendra aðila er að aukast á svæðinu og þar liggja sóknarfæri þegar almenn ferðalög fara aftur af stað. Fámennið og stórbrotin náttúran mun, ásamt háu þjónustustigi og miklu úrvali afþreyingarmöguleika, gera Norðurland að mjög áhugaverðum og freistandi valkosti fyrir ferðalanga í kjölfar Covid-19 að ég tel.“   

Verði undirbúin þegar ferðalög hefjast á ný

Uppbygging á Akureyrarflugvelli er eitt af því sem Flugklasinn fylgist grannt með og þar eru nú langþráðar framkvæmdir að hefjast. Búið er að ganga til samninga við verktaka um jarðvinnu samhliða færslu á olíutönkum, sem er nauðsynlegt til að rýma fyrir nýrri byggingu. Jafnframt er núna verið að vinna að lokahönnun á viðbyggingunni sem fyrirhugað er að reisa við flugstöðina. Samhliða þessu er verið að undirbúa næstu skref við stækkun flughlaðs. Hjalti segir að framundan hjá Flugklasanum sé að fylgja því eftir að það komi fjármagn á næsta ári til að reisa viðbygginguna – eins og búið er að tilkynna. „Það er gríðarlega mikilvægt að nýta tímann núna meðan heimsfaraldurinn gengur yfir, til þess að byggja upp og vera undirbúin þegar opnast fyrir ferðalög að nýju,“ segir Hjalti.

Flugstöð verði komin í gagnið 2022

Sjálfur segist hann binda vonir við að ný flugstöð verði komin í gagnið eftir tvö ár. „Það væri best ef það yrði eftir eitt ár og það væri vel hægt. En raunsætt mat eru eitt og hálft til tvö ár. Vonandi gengur það eftir og að fyrir sumartímbilið 2022 verði hér ný og endurbætt flugstöð og nýtt flughlað.“

 

Nýjast