Bjartsýni fyrir bæjarhátíðum í sumar

Mörgum bæjarhátíðum var frestað síðasta sumar en útlit er fyrir að hægt  margar bæjarhátíðir fari fr…
Mörgum bæjarhátíðum var frestað síðasta sumar en útlit er fyrir að hægt margar bæjarhátíðir fari fram í sumar.

Eftir að heilbrigðisráðuneytið kynnti afléttingaáætlun vegna kórónuveirufaraldursins á dögunum lyftist brúnin hjá fulltrúum bæjarhátíða sem eru fjölmargar á sumri hverju víðs vegar um landið. Áætlað er að aflétta megi öllum innanlandstakmörkunum síðari hlutann í júní þegar um 75% þjóðarinnar hafi fengið a.m.k. einn bóluefnaskammt.

Fjölmargar hátíðir fara fram á Akureyri og nágrenni á sumrin en þegar er búið að aflýsa Fiskideginum mikla á Dalvík. Hins vegar er útlitit ágætt fyrir aðrar hátíðir. „Þetta voru mjög gleðilegar fréttir um afléttingar stjórnvalda sem fylla alla bjartsýni,“ segir Almar Alfreðsson verkefnisstjóri menningarmála hjá Akureyrarbæ í samtali við blaðið. Hátíðin Ein með öllu hefur varið haldin á Akureyri um verslunarmannahelgina í mörg ár og þá slær Akureyrarvaka iðulega botninn úr sumrinu á haustin.

Fylgjast með þróun faraldursins

Almar segir að ekki verið teknar endanlega ákvarðanir. „En það verða stórir viðburðir hér um verslunarmannahelgina. Alþjóðlega utanvegahlaupið Súlur Vertical fer fram um versló. Helgina á undan er tvö hjólreiðamót sem einnig fer að hluta fram um verslunarmannahelgina. Ég á von á að við fylgjumst með hvernig þróun faraldursins verður næstu tvær til þrjár vikurnar áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar um meiriháttar hátíðarhöld,“ segir Almar. Ekki hafði verið tekin ákvörðun um hvort Mærudagar á Húsavík færu fram þegar blaðið leitaði upplýsinga frá fulltrúum hátíðarinnar. Þá fer Handverkshátíðin í Eyjafjarðarsveit fram með óhefðbundnu sniði.

Bíladagar fara fram

„Við stefnum á að halda Bíladaga á réttum tíma og byrja 17. júní,“ segir Einar Gunnlaugsson framkvæmdastjóri Bílaklúbbs Akureyrar. „En ef takmarkanir hamla okkur of mikið þá þá munum við fresta þeim um einhverjar vikur í von um að frjálsara verði með fjölda gesta.“ Einar segir Bíladaga verða með svipuðu sniði og undanfarin ár og jafnframt sé stórum áfanga lokið hjá klúbbnum með smíði á alvöru spyrnubraut. „Svo hátindur Bíladaga verður formleg opnun brautarinnar langþráðu og gert mikið úr þeim viðburð,“ segir Einar.

 

Nýjast