30. október - 6. nóember - Tbl 44
Birkið í vanda
Það vekur athygli að laufblöð á birkitrjám í bæjarlandinu eru æði mörg brúnleit og virðist sem að meira beri á þessu í ár en s.l. ár Pétur Halldórsson kynningarstjóri hjá Skógræktinni er fróður um allt sem tengist skógrækt. Vefurinn leitaði til hans í sambandi við það hvað væri að gerast með birkið.
,,Það eru í raun tvær nýjar pöddur sem herja á birkið og þótt þær séu óskyldar beita þær sömu brögðum, að verpa í laufblöðin. Önnur kallast birkikemba en hin birkiþéla. Birkikemba er fiðrildi en birkiþéla blaðvespa, báðar mjög smávaxnar. Lirfurnar klekjast út og lifa innan í laufblöðunum og éta þau innan frá. Fyrst kemur birkikemban og verpir snemma í maí og jafnvel fyrr, þegar birkið er varla byrjað að laufgast.
Skemmdirnar koma svo fram í júní en lirfurnar verða að fiðrildum og hverfa úr trjánum áður en sumarið er hálfnað. Um svipað leyti eða frá því seint í júní og fram í júlí, verpa kvendýr birkiþélunnar og skemmdir vegna lirfu hennar koma fram seinni hluta sumars. Ef báðar þessar tegundir eru til staðar á sömu trjánum geta skemmdir sést á birkinu allt sumarið en ef einungis er birkikemba ná trén sér að mestu seinni hluta sumars.
Ekki hafa þessar árásir þó alltaf mikil áhrif á vöxt trjánna. Þó getur kveðið svo rammt að þeim að trén veiklist og fullyrt hefur verið að birkitré hafi hreinlega drepist af þessu. Óvini eiga þessar tegundir fáa ef nokkra á Íslandi.
Þó hefur sést til fugla, t.d. svartþrasta, tína birkikembufiðrildi af trjám á vorin. Vonandi eflast fuglarnir í þeirri iðju."
Pétur sem er sannkallaður fróðleiksbrunnur bættir við.
,,Hér er stutt um birkikembu:
https://www.skogur.is/is/nyskograekt/trjategundir-og-trjaheilsa/skadvaldar-i-trjam/birkikemba
Hér er svo stutt um birkiþélu:
https://www.skogur.is/is/nyskograekt/trjategundir-og-trjaheilsa/skadvaldar-i-trjam/birkithela
Hér er frétt frá 2018 um rannsóknir á þessum kvikindum. Á þeim fimm árum sem liðin eru hafa þau haldið áfram að dreifast um landið, sérstaklega birkikemban. Báðar tegundirnar eru á Akureyri og nú hefur komið í ljós að í raun eru tvö afbrigði af birkikembu í gangi.
Ef þú slærð inn „birkikemba“ á skogur.is kemur upp fullt af öðru efni.“