Bifreiðastæðasjóður Akureyrarbæjar-Tekjur yfir 80 milljónir króna

Heildartekjur Bifreiðastæðasjóðs Akureyrar á liðnu ári náum um 84 milljónum króna.  Gjaldskylda var tekin upp í byrjun apríl á síðastliðnu ári. Á meðan klukkukerfið var við lýði áður en gjaldskylda var tekin upp að nýju voru tekjur af sjóðnum á ársgrundvelli í kringum 30 til 35 milljónir króna.

Í áætlun sem byggði á ráðgjöf frá Verkfræðistofunni EFLU varðandi það verkefni að innleiða gjaldskyldu á bílastæði á Akureyri var gert ráð fyrir að vænta megi tekna á bilinu frá 70 og upp í 95 milljónir króna árlega, þ.e. vegna stöðubrota, aðstöðugjalda, fastleigustæða og greiðslum fyrir bílastæði.

Tómas Björn Hauksson forstöðumaður nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ segir að  safna þurfi gögnum í að minnsta kosti eitt ár til að meta árangur af því verkefni að skipta úr klukkukerfi, þar sem ekki var rukkað fyrir bílastæði og yfir í gjaldskyldu.

Hann segir að búast megi við að fyrir liggi nú um miðjan janúar hverjar tekjur sjóðsins verði fyrir árið 2022. Þá verði að líkindum unnin greinargerð um þá reynslu.

 Skoða hvort ástæða er til frekari breytinga

 „Sú vinna hefur staðið yfir með talningum frá því að gjaldtakan hófst en verður ekki full kláruð fyrr en komin verði eins árs reynsla af gjaldtökunni. Á þeim tímapunkti verður sett saman greinagerð þar sem farið verður yfir hvernig til hefur tekist og árangur metinn,“ segir Tómas Björn.

Halla Björk Reynisdóttir formaður bæjarráðs Akureyrar segir mikilvægt fyrir þá sem á endanum taka ákvörðun um framhaldið að rýna þær breytingar sem lagðar eru til og fara í framkvæmd. „Við munum þegar reynslutíminn er liðinn rýna bæði hvort breytingin hafi náð tilætluðum árangri og í framhaldinu fara yfir hvort ástæða sé til að gera frekari breytingar,“ segir hún.

Nýjast