27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Bíddu bara í Hofi 11 febrúar
Gaflaraleikhúsið kemur nú til Akureyrar með metsölusýninguna Bíddu Bara sem hefur nú verið sýnd yfir 60 sinnum fyrir fullu húsi í Hafnarfirði. Sýningin,sem er alger hlátursprengja, er eftir stórstjörnurnar Björk Jakobsdóttur, Sölku Sól Eyfeld og Selmu Björnsdóttur. Gagnrýnandi RÚV kallaði sýninguna óvæntasta gleðigjafa ársins og án efa fyndnustu sýninguna.
Þetta einlæga, beitta og drepfyndna verk fjallar um raunveruleika íslenskra kvenna; um vonir og drauma, biturleika og frú-strasjónir. Þær Björk, Salka Sól og Selma byggja verkið alfarið á sinni eigin reynslu, draga ekkert undan en ljúga helling. Þetta er verk um íslenskar konur, samið af íslenskum konum og fyrir íslenskar konur (og fyrrverandi, núverandi og tilvonandi eiginmenn sem þora að koma). Það má segja að þetta sé olnboga-verk, því áhorfendur munu skjóta olnboga í sessunautana ótt og títt og hvísla: svona ert þú! Uppistand, samtöl og söngur af bestu sort. Þær Salka Sól, Selma og Björk leika öll aðalhlutverk, aukahlutverk, kvíðaverk og smáhlutverk í sýningunni auk þess að flytja snilldarlega helling af frábærri, nýrri tónlist eftir þær sjálfar og Karl Olgeirsson.
Miðasala er á tvix.is