Bernskuminningar Hrefnu Hjálmarsdóttur

Hrefna Hjálmarsdóttir
Hrefna Hjálmarsdóttir

Á björtum og fallegum sunnudegi fór ég í heimsókn til Hrefnu Hjálmarsdóttur og ræddi við hana um hátíðar bernskuminningar hennar. Hrefna, sem fædd er árið 1943, ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík.

Þetta var stuttu eftir stríð þannig ekki var mikið um vörur hér á landi, mikill skortur en fólk bjargaði sér þó að sögn Hrefnu, og ef það voru einhverjar vörur, voru biðraðir eftir þeim, ekki ýkja langt frá eins og er í dag biðraðir eftir einhverju nýju. Hrefna minnist þess vel að mamma hennar, sem var saumakona, fór oft í biðraðir á sumrin til þess að athuga hvort þar fengist efni í jólakjóla fyrir börnin hennar. Mamma hennar saumaði alltaf á þær jólakjóla sem þóttu mjög fínir og þær voru alltaf mjög ánægðar með sig í þessum jólakjólu 

„Það er einhver svona ljómi yfir þessu“

Hrefna minnist þess einnig að mamma hennar hafi saumað jólasveinabúning á hana. Búningurinn var gerður úr krep-pappír og því hafi hún ekki mátt setjast niður til að búningurinn rifnaði ekki.

Litla systir Hrefnu kallaði hana alltaf Bebbó, og eitt kvöldið kom Hrefna inn sem jólasveinn. Sennilega hefur systir hennar þá verið  um það bil þriggja ára. Jólasveinninn stoppaði  í smástund en þegar hann er farinn, segir systir hennar að jólasveinninn hafi átt alveg eins hring og Bebbó systir!

Hrefna átti þá rauðan hring með rúbínsteini og jólasveinninn var ekki í hönskum og þar af leiðandi sást hringurinn.

Hrefna segir svo við mig „Ég held með þetta jólasveinatal að börn séu engir kjánar, en þau vilja halda í ævintýrið. Það er einhver svona ljómi yfir þessu.“

Gluggagottið

Hrefna fékk, þegar hún var yngri, sælgæti í skóinn. En þetta var ekki bara venjulegt sælgæti heldur Gluggagott eins og hún kallar það. Gluggagottið er gervi-marsípan sem gert var úr kartöflum, flórsykri og möndludropum.

„Okkur þótti þetta rosalega gott, svo var þetta litað, kannski rautt eða grænt,“ segir Hrefna og segir jafnframt að þetta hafi myndað glugga og þaðan fékk það nafnið.

Hún segist hafa prófað að gera þetta eftir að hún varð fullorðin en segir að það hafi ekki verið neitt varið í það, ekki eins og þegar þau voru yngri.

Góðverk um jólin, ein fallegasta bernskuminningin

Ein fallegasta bernskuminning Hrefnu var góðverk sem mamma hennar gerði alltaf um jólin.

Það var þannig að móðir hennar átti systur, sem einnig hét Hrefna, en hún lést úr berklum. Hún hafi átt vinkonu sem einnig veiktist af berklum en lifði það af, hafði hins vegar ekki mikið starfsþrek. Fjölskyldan hennar var mjög stór og mamma Hrefnu bakaði alltaf fyrir þessa konu og fjölskyldu hennar.

„Ég man að fyrsta desember var oft frí í skólunum í gamla daga og einhvern tímann vaknaði ég nokkuð seint og þá sá ég að mamma var búin að panta hveiti, sykur og sýróp og allt möguelgt og þá var hún að baka fyrir þessa konu.“

Hrefna minnist þess einnig að hafa stundum farið með mömmu sinni með kökurnar en þetta voru um 5 til 7 dunkar af kökum.

„Ég man sérstaklega eitt vetrarkvöld, það var kalt og stjörnubjart og þá gengum við með þessa dunka heim til hennar. Og þegar við komum var kallað: „Oohhh, Soffía komin með kökurnar“ – og mér fannst þetta svo gaman,“ segir Hrefna.

Hún segir jafnframt að á þessum tíma hafi þær jafnan farið gangandi með kökurnar. Systir Hrefnu, sem er 9 árum yngri en hún, man einnig eftir þessum kökuferðum nema að þá hafi verið farið á bíl. Kökubaksturinn og -flutningarnir hafa því staðið yfir í a.m.k. 10 ár.

Miðbæjarstelpan sem kunni allt

Hrefna var svokölluð miðbæjarstelpa en hún var í Miðbæjarskólanum í Reykjavík. Í þeim skóla var kennari sem var duglegur að setja upp leikrit með nemendunum. Næstum allir krakkarnir í bekknum fengu að vera með og ef það var ekki hlutverk fyrir alla þá var bara búið til hlutverk svo allir gætu verið með.

Hrefna man eftir að hafa leikið í leikriti sem hét Jólagestir og annað sem hét Grámann í Garðshorni. Þau léku hins vegar fleiri leikrit en þetta eru þau sem Hrefna man eftir.  Kennarinn fékk einu sinni ungan leikara til að koma og fylgjast með þegar þau voru í Grámann í Garðshorni. Hann kom með ýmsa punkta um hvað mætti fara betur. Þessi leikari var Jóhann Pálsson, sem seinna meir var garðyrkjustjóri hjá Akureyrarbæ.

Hrefna segist hafa lært leikritin alveg utan að, lék leikritin heima fyrir systur sínar, sem báðar eru yngri en hún, með dúkkulísum. Hún skilur enn þann dag í dag ekki hvernig hún mundi öll leikritin.

Skólaleikritið Jólagestir. Kjólar voru saumaðir af mömmunum og hlutverkum bætt við eftir þörfum til þess að allir gætu verið með

Ávextir, gjöf sem gleður eða gladdi

Það sem Hrefna segist sakna mest við jólin eða jólahefðir sé sú staðreynd hvað þurfti lítið til að gleðja, eins og ávextir.

Það komu epli fyrir jól. Pabbi Hrefnu vann á Keflavíkurflugvelli þar sem hann bjó alla virka daga. Þá daga var hann í mat hjá einhverjum messa þar sem hann fékk ávexti og morgunkorn í litlum kössum. Hann kláraði nú ekki alltaf matinn; til að geta glatt börnin sín um helgar þegar hann kom heim.

„Ég man að hann stóð með hendur fyrir aftan bak og við vissum að hann var kannski með eitt epli og eina appelsínu. Við systur máttum svo velja hvort við vildum hægri eða vinstri.“ Það var þá spurningin um hvor fengi epli og hvor appelsínu.

Það er að sögn Hrefnu þessi nægjusemi sem sé eitt af því sem hún sakni og segir einnig að hún sé alveg dolfallin yfir ofneyslunni hér á jörðinni.

Á hennar yngri árum var svo mikil nægjusemi og fólk þekkti ekkert annað. Húsmæður á þessum tíma áttu stórt hrós skilið þar sem þær unnu svo mikið, það þurfti að baka og það þurfti að þrífa. Kannski var allur þessi þrifnaður óþarfi en samt sem áður voru götur á þessum tíma ekki malbikaðar og því mikið ryk sem barst inn. Á sumum stöðum voru líka kolavélar.

Hamingjusöm að eiga bað

Eitt af því sem Hrefna segist ekki sakna er það að heima hjá henni var ekkert bað. Hún man óljóst eftir því að hafa verið böðuð í bala en það var eitthvað lítið um það. Þær systur fóru í baðhúsið í Reykjavík til þess að baða sig í risastóru baðkari. Pabbi þeirra fór í Hafnarböðin til að baða sig. Í dag segist Hrefna vera mjög hamingjusöm að eiga bað á fullorðinsárunum.

„Þannig auðvitað er margt miklu betra í dag en það var.“

Stærsti munurinn á jólunum er offramboðið

Munurinn á jólum í dag og jólum áður, að sögn Hrefnu, er þetta offramboð af öllu. „Í dag er bara hægt að fara í búðir og kaupa smákökur, föt og sælgæti ef maður á pening.“

Hrefna minnist þess hvernig þetta var þegar hún var yngri, „Mamma bjó til karamellur og eitt og annað. Fólk bara bjargaði sér, það var allt svo miklu hófstilltara hjá flestum.“

 Alltaf góður matur á aðfangadag

Hrefna segir að aðfangadagur hafi verið lengi að líða þegar hún var yngri. Á þeim tíma var ekkert sjónvarp en það var útvarp og mögulega hlustuðu þau eitthvað á útvarpið en hún man ekki alveg hvernig það var.

Þau fóru ekki í kirkju. Hrefna segist ekki vita alveg af hverju það var en kemur með mögulegar skýringar. Það gæti til dæmis hafa verið vegna þess að þau áttu ekki bíl og það var góður spölur að Dómkirkjunni. Þau hlustuðu þó alltaf á messuna, sem Hrefna segist gera enn þann dag í dag.

Hún segir að það hafi alltaf verið mjög góður matur á aðfangadag, oftast rjúpur vegna þess að mamma hennar var vön því frá æsku. Mamma hennar var í vist í Reykjavík þar sem hún meðal annars lærði hjá dönsku fólki. Þaðan er líklegt að hefðin um möndlugrautinn hafi komið. Möndlugrauturinn var alltaf á aðfangadagskvöld en þegar Hrefna gifti sig þá var hefðin hjá manninum hennar að vera með grautinn í hádeginu sem Hrefna segir að hafi bara verið alveg ágætt.

Hrefna, til vinstri, og systur í jólakjólum saumuðum af mömmu þeirra

 Spennandi bækur í jólagjöf

Síðan voru það jólakortin og jólapakkarnir. Pakkarnir voru þó ekki margir og Hrefna telur að þeir hafi verið innan við 10.

Fjölskylda mömmu hennar var svo stór að ekki var hægt að gefa öllum pakka „en pakkarnir sem ég fékk voru frá foreldrum mínum og afa mínum í föðurætt, föðursystrum mínum og svona.“

Hún man best eftir að hafa fengið bækur í jólagjöf, þá gjarnan bækur eftir Enid Blyton, sem hún telur að hún hafi fengið hver einustu jól.  Bækurnar voru spennandi og segir Hrefna að þegar hún var lítil hafi hún spænt bækurnar í sig á jólanótt en lesið þær svo kannski betur seinna. Þessar bækur átti hún fram á fullorðinsár.

„Mér fannst svolítið gaman þegar krakkarnir mínir fóru að lesa þessar bækur og þeim fannst þær líka svona spennandi,“ segir hún að lokum.

Nýjast