Barn er fætt í heimahúsi

Fjölskyldan öll saman en á myndina vantar Tinnu, þá elstu í barnahópnum, en hún varð bráðkvödd árið …
Fjölskyldan öll saman en á myndina vantar Tinnu, þá elstu í barnahópnum, en hún varð bráðkvödd árið 2014. Myndir Úr einkaeigu

Nokkur aukning hefur orðið á tíðni heimafæðinga hér á Íslandi á síðastliðnum árum. Árið 1990 voru aðeins tvær skráðar heimafæðingar á landsvísu en árið 2021 voru þær 157 talsins. Inga Vala Jónsdóttir hefur starfað sem ljósmóðir frá árinu 2003 og síðar meir einnig sem brjóstagjafaráðgjafi og sem heimaljósmóðir. Ingu Völu þykir bersýnilega vænt um starfið sitt og skjólstæðinga eins og lesa má úr viðtalinu sem undirrituð tók við hana á dögunum.

Samhliða starfi sínu sem ljósmóðir á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á heilsugæslunni sinnir Inga Vala einnig heimafæðingum hér á Akureyri og nágrenni.  Inga Vala hefur sérstaka persónutöfra og notalega nærveru. Jákvæðni og umhyggja fyrir öðrum einkenna hana sem kemur sér vel bæði í starfi sem og í sínu persónulega lífi.

-Viltu segja mér aðeins frá þér?

„Ég er Akureyringur, fædd hér og uppalin. Ég á ansi góðan mann sem heitir Ingólfur Samúelsson og við höfum eignast fjögur börn; Tinnu, Steinar, Loga og Ragnhildi.  Ég syng í kór, baka, elda og prjóna mér til skemmtunar, strunsa um götur bæjarins og úti í náttúrunni með vinkonum mínum, teygi og liðka skankana í Sjálfsrækt, les og hlusta mikið á skáldskap og „nördast“ stundum aðeins of mikið yfir ljósmóðurfræðunum í frítímanum líka.“

Inga Vala á góðri stundu, ekki á ljósmæðravakt

Hugfangin af ferlinu

Ingu Völu datt fyrst í hug að fara í hjúkrun þegar hún var í menntaskóla. Háskólinn á Akureyri var þá nýr af nálinni og aðeins boðið upp á þrjár námsbrautir og hjúkrun sú eina sem heillaði Ingu Völu. Hún á reyndar ekki langt að sækja fyrirmynd sína en móðir hennar er sjúkraliði.

Að stúdentsprófi loknu fékk hún sumarvinnu á sjúkrahúsinu en hafði nýlega lent í þeirri þungbæru reynslu að missa fóstur í tvígang með stuttu millibili, sem litaði upplifun hennar af starfinu. En hún þurfti ekki að bíða lengi eftir að óskin rættist.

„Um haustið verð ég ófrísk í þriðja sinn, var logandi hrædd um litla krílið en það varð líka til þess að ég las allt sem ég komst í (bækur sem fylltu aðeins hluta úr einni hillu á Amtsbókasafninu - ekkert internet þá!) og varð algjörlega hugfangin af ferlinu, meðgöngunni, fæðingunni, brjóstagjöfinni og öllu sem tilheyrði.“

Ekkert minna en kraftaverk

Inga Vala tók í fyrsta sinn á móti barni í heimahúsi haustið 2004. „Ég fór rólega af stað en var ákveðin í að heimafæðingar þyrftu að vera valkostur.“  Síðan þá hefur hún tekið á móti ótal börnum og heimafæðingum mjög vel söguna.

„Lífeðlislegt ferli fæðingar er ekkert minna en kraftaverk í hvert sinn og það sé ég skýrar þegar ég er með fjölskyldum í þeirra „náttúrulega“ umhverfi, þ.e. á þeirra eigin heimili.“

Einstök stund er Ragnhildur, yngsta dóttir Ingu Völu, fæðist heima. Á myndinni tekur Tinna, frumburðurinn, á móti litlu systur sinni en Logi, yngri sonurinn, situr í fangi Ingólfs föður síns. Til vinstri er Málfríður St. Þórðardóttir ljósmóðir og kær vinkona Ingu Völu. Inga Vala hefur sjálf tekið á móti barni hjá Málfríði en þær voru samferða í gegnum hjúkrun og ljósmóðurfræði og er fyrsta ljósubarnið hennar Ingu yngsta barn Málfríðar. Nákvæmlega tveimur árum síðar, upp á dag, tók hún svo á móti Loga, syni Ingu Völu og síðar Ragnhildi

Aðspurð hvers vegna hún telji að heimafæðingar heilli fólk nefnir hún ýmislegt. „Heima líður fólki yfirleitt best og finnur til öryggis í sínu umhverfi. Þar er yfirleitt auðveldast að vera maður sjálfur og maður þarf ekki að eyða aukaorku í að gangast inn í hlutverk sem við göngumst ósjálfrátt inn í í öðru umhverfi, t.d. sem sjúklingur á spítala. Þá nálgast maður fjölskylduna öðruvísi, jafnvel af meiri virðingu. Í hennar umhverfi öðlast maður dýpri skilning á hvaðan fólk kemur, hvað hefur mótað það og þá hverjar eru væntingar þess til fæðingarinnar.“

Heillar marga að láta reyna á eigin styrk

Inga Vala nefnir einnig samfelluna sem felst í heimafæðingunni, „ef allt gengur upp þá eru engin vaktaskipti, ég er með frá upphafi til enda heimafæðingar. Svo held ég að það heilli marga að láta reyna á eigin krafta og styrk. Að finna að maður ráði við þessar krefjandi aðstæður á þessum hápunktum í lífinu. Að finna spendýrið í sér spretta fram.“

Hún segir að fæðing sé andleg og líkamleg áskorun fyrir báða foreldra og geti verið svo mögnuð reynsla að ganga í gegnum saman sem gefi möguleika á að dýpka og styrkja tengslin í parsambandinu líka.

„Fyrstu stundir barnsins í fangi foreldra eiga sér enga hliðstæðu og það er óviðjafnanlegt að sjá náttúruna að verki þegar litla krílið – sem við hugsum oftast um sem ósjálfbjarga – sýnir að það hefur alla burði til að koma sér sjálft á brjóst, fái það bara frið og réttu aðstæðurnar til þess. Heima hafa líka eldri systkini greiðari aðgang að þessum stundum sem er líka dýrmætt.“

Breytt viðhorf

Miklar breytingar urðu á barneignarþjónustu á síðustu öld og hefur fæðingarstaður færst frá heimili á sjúkrahús. Árið 1980 voru skráðar 36 heimafæðingar hér á landi en þeim fækkaði hratt og örugglega næstu árin og voru aðeins tvö skráð tilvik árið 1990. Nú hefur þeim hins vegar fjölgað aftur og voru 157 heimafæðingar skráðar hér á landi árið 2021. Einhvers konar viðhorfsbreyting hefur greinilega átt sér stað síðustu ár.

Inga Vala segist hafa fundið fyrir aukningunni síðustu misseri. „Þær tóku svolítinn kipp á Covid-tímum þar sem hlíta þurfti ströngum sóttvarnareglum sem gerðu e.t.v. spítalaumhverfið meira fráhrindandi, sérstaklega varðandi viðveru aðstandenda. Árið sem er að líða hefur einnig verið í stærra lagi.“

Inga Vala segist yfirleitt upplifa viðhorf samfélagsins gagnvart heimafæðingum jákvætt. „Nú orðið þekkja flestir einhvern sem hefur fætt barn sitt heima og það þykir orðið venjulegra – það var aldeilis ekki talið venjulegt fyrir 20 árum! Neikvætt viðhorf byggist yfirleitt á vanþekkingu.“

Það má alltaf breyta um stefnu…

-En feðurnir? Hvernig er viðhorf þeirra til heimafæðinga?

„Feðurnir eru að jafnaði með aðeins meiri efasemdir í byrjun sem stafar oftast af því að þeir hafa ekki kynnt sér hugmyndafræðina og útkomur heimafæðinga jafn vel og mæðurnar. Þegar þeir hafa hins vegar fengið tækifæri til að kynna sér málið og fræðast, snúast þeir gjarnan á sveif með konu sinni, þeir finna hvað þetta er þeim oft mikið hjartans mál.“

Inga Vala segir að feðrunum finnist oft líka gott að vita að það megi alltaf breyta um stefnu, skipta um skoðun og flytjast á spítalann ef eitthvað bendi til þess að mögulega sé eitthvað að bregða út af eðlilegu ferli.

Hún segir að hún gefi ekki afslátt af öryggi, það þurfi gagnkvæmt traust ljósmóður og verðandi foreldra. „Ef foreldrar vilja flytjast á spítala einhvern tímann í fæðingarferlinu stend ég ekki í vegi fyrir því – að sama skapi ætlast ég til að þau samþykki flutning telji ég hann nauðsynlegan.“

 Með símann að bíða eftir næstu heimafæðingu!

-Hvernig verða jólin hjá þér?

„Ég verð líklega með símann að bíða eftir næstu heimafæðingu! Þessi jólin er ég svo heppin að hafa mág minn og fjölskyldu í heimsókn yfir hátíðina, þau eru góðir kokkar og geta auðveldlega leyst mig af ef ég þarf að skjótast í fæðingu. Svo koma fleiri úr tengdafjölskyldunni og mömmu minni er að sjálfsögðu boðið, það stefnir í að við verðum fimmtán saman á aðfangadagskvöld heima hjá okkur.“

Hefðirnar á heimili Ingu Völu verða að hennar sögn sveigjanlegri með hækkandi aldri og lífsreynslu. „Það helsta er að krakkarnir heimta sinn hamborgarhrygg á meðan við eldra fólkið höllumst meira að lambakjötinu góða svo það er yfirleitt tvíréttað. 

Við höfum alltaf haft lifandi jólatré og síðustu ár höfum við verið svo heppin að fá það frá föðursystur minni og fjölskyldu sem rækta Hvammsskóg sem liggur að Kjarnaskógi. Svo þarf ég að fara í kirkjugarðinn, stundum ein, stundum kemur öll fjölskyldan með. Jólin eru líka tími ljúfsárs saknaðar eftir þeim sem eru farnir á undan okkur.“

Sérstakur friður og stemning yfir jólahátíðinni

Inga Vala verður reiðubúin að stökkva til ef barn boðar fæðingu sína yfir hátíðirnar en hún er einnig á vöktum milli jóla og nýárs og fær eina rauða jólavakt á spítalanum á jóladagsmorgun. Líklega tekur hún því á móti litlu jólabarni.  Hún segist alltaf hafa haft gaman af því að vinna yfir hátíðirnar, þó það komi kannski niður á þeim sem sakna hennar heima fyrir.

„Það er sérstakur friður og stemmning yfir jólahátíðinni þar. Jólaljósin kveikja á einhverju ljósi innra með okkur ljósmæðrunum líka. Þegar ég var krakki og unglingur og var alltaf að flýta mér að verða stærri og fullorðin, vorkenndi ég þeim sem áttu afmæli á jólunum.

Í dag finnst mér þau börn bara heppin að fæðast í þennan frið, fegurð og jólaanda – þau hljóta að verða betri börn fyrir vikið!“

 

 

Nýjast