6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Baráttufundur og undirskriftasöfnun fyrri kattaframboðið á morgun
Á síðasta ári boðaði Snorri Ásmundsson að nýtt kattaframboð myndi bjóða fram í komandi sveitarstjórnarkosningum á Akureyri. Hugmyndin kom í kjölfar þess að bæjarstjórn Akureyrar samþykkti bann við lausagöngu katta á Akureyri frá og með janúar 2025.
„Hugmyndin er að kettir bjóði sig fram í bæjarstjórn Akureyrar og mjálmi í burt hatursfulla bæjarfulltrúa,“ skrifaði Snorri á Facebook þegar hann kynnti hugmyndina upphaflega.
„Kettir hafa vissulega ekki kennitölu eins og mannfólk, en hugmyndin er að eigendur kattanna láni þeim kennitölu sína til að þeir verði kjörgengir. Akureyri er sannkallaður kattabær og þeir ættu að vera stolt Akureyringa,“ stóð enn fremur í tilkynningunni.
Umræða og kynning á helstu stefnumálum Kattaframboðsins og undirskriftasöfnun með framboðslista Kattaframboðsins fer fram í Ketilkaffi á Listasafninu á Akureyri klukkan 17:15 á morgun miðvikudag, segir í tilkynningu sem Snorri sendi frá sér fyrr í dag.