Bakþankar: Að lifa lífinu á handbremsunni
Hræðsla við allt mögulegt er eitthvað sem hefur háð mér síðan ég var krakki. Mamma gat ekki skilið mig eftir einan á róló því ég var svo hræddur að vera án hennar. Ég forðaðist eins og ég gat að ferðast með flugi því ég var svo flughræddur. Ég kom ekki út úr skápnum fyrr en ég var 25 ára því ég var svo hræddur við útskúfun.
Þegar maður lætur hræðsluna stjórna sér lifir maður lífinu á handbremsunni.Ef þú myndir leggja keyrandi upp í hringferð um landið með handbremsuna á kæmist þú ekki langt og færir því á mis við alla fallegu staðina á hringferðinni.Þetta er alveg eins með lífið, ef þú ferð í gegnum það á handbremsunni ferðu á mis við svo margt fallegt og skemmtilegt. Ég þekkti mann sem var svo hræddur við að ferðast að ferðalögin út fyrir heimahaga hans voru teljandi á fingrum annarar handar, hann þekkti hvorki landið sitt né önnur lönd.
Ég á líka vin sem er svo hræddur við höfnun að hann leggur ekki í að stíga í vænginn við hitt kynið, hann fer á mis við svo mikið af fallegum og góðum manneskjum. Ég þekki konu sem er svo hrædd um álit annara á sér að hún þorir hvorki í sund né ræktina því hún heldur að allir muni horfa á sig og dæma, hún fer á mis við perluna okkar, heita vatnið og ferska loftið. Svo eru það fordómarnir. Fordómar spretta oftar en ekki upp úr hræðslu, hræðslu við eitthvað sem við þekkjum ekki nægilega vel. T.d. er til er fólk sem hræðist íslanmstrú og múslima, það fólk finnur því öllu til foráttu að hingað komi flóttamenn og myndi aldrei þora að kynnast múslimum.
Þetta fólk fer á mis við að kynnast ólíkum menningarheimi og fólki sem víkkar sjóndeildarhringinn okkar. Flest okkar erum við með einhverja handbremsu á lífinu. Segjum henni stríð á hendur og förum ekki mis við að lifa lífinu til fulls, í lit.