Bækur vinsælar jólagjafir

"Það er ávallt góð stemmning hjá okkur á Þorláksmessu," segir Guðrún Karítas. Mynd/Þröstur Ernir.

„Jólavertíðin er skemmtilegasti tími ársins og þá sérstaklega Þorláksmessa,“ segir Guðrún Karítas Garðarsdóttir verslunarstjóri hjá Eymundsson á Akureyri. Starfsfólk í bókabúðum landsins hafa jafnan í nógu að snúast fyrir hver jól þar sem vinsælustu bækurnar hrannast inn í verslanir. „Jólaösin hefst strax í byrjun nóvember en þá er fólk farið að skoða bækurnar og velta fyrir sér hvað þeim líst best á og hvað sé hægt að gefa í jólapakkann. Mesti erillinn hefst yfirleitt um fyrstu helgina í aðventu og svo vex þetta jafnt og þétt fram að jólum.“

Hún segir úrvalið mikið í ár og gróska í flestum bókaflokkum. „Ævisögurnar eru áberandi, t.d. um Hemma Gunn og Jón Pál Sigmarsson. Einnig eru fjórir stjórnamálamenn að senda frá sér bók. Það eru ýmsar áhugaverðar bækur í boði og margir af okkar helstu rithöfundum að senda frá sér bók. Ég held að þetta verði góð bókajól, enda er bókin klassísk jólagjöf og stendur enn af sér allar hrakfaraspár um að hún sé að deyja út. Rafbókin er ekki ná að festa sig í sessi og mörgum finnst meiri sjarmi að vera með prentað eintak. Ég er ein af þeim en það fyrsta sem ég geri eftir að ég opna bók er að lykta af pappírnum,“ segir Guðrún og hlær.

Í draumastarfinu

Guðrún hefur starfað sem verslunarstjóri í tvö ár og eru þettu þriðju jólin hennar. „Ég er í draumastarfinu og finnst forréttindi að ganga inn í þetta hús á hverjum degi. Mér finnst þetta eitt fallegasta hús landsins og staðsetningin er frábær. Ég hitti margt fólk og stundum mætti líkja þessu við lestarstöð; það koma flestir hérna við sem eiga leið um bæinn.“

throstur@vikudagur.is

Nýjast