Ávarp fjallkonunnar á 17. júní
Inda Björk Gunnarsdóttir, leikskólastjóri á Kiðagili, er fjallkona Akureyrar 2021. Hún hefur frá árinu 2012 verið skólastjóri á Kiðagili sem er einn af 10 leikskólum Akureyrarbæjar. Þar eru við leik og nám tæplega 100 börn á fjórum deildum. Ávarp sem Inda Björk flutti í Lystigarðinum 17. Júní birtist á vef Akureyrarbæjar og var svohljóðandi:
Kæru Íslendingar.
Þegar við veltum því fyrir okkur hvað skiptir mestu máli, kemur framtíðin upp í hugann. Hið ókomna skiptir máli í lífi hvers og eins. Það er einnig hið ókomna sem skiptir samfélög, þjóðir og heiminn allan mestu máli.
Allir sem tilheyra samfélagi mannanna taka þátt í því að skipuleggja framtíðina. Þess vegna er nauðsynlegt að þeir sem framtíðina móta, hafi sýn á það sem þeir óska sér. Hvernig samfélagi villt þú tilheyra? Hvernig samfélagi vilt þú að börnin þín vaxi upp í?
Þó svo að síðasta ári hafi verið frábrugðið öðrum árum, fyrir flesta er þó alltaf hægt að læra eitthvað nýtt af nýrri reynslu, nýjum áherslum og breytingum. Því með breytingum nær fólk að bera saman það sem var og það sem er. Einnig að mynda sér skoðun á því sem koma skal. Öllum breytingum fylgir nám, nýjar uppgötvanir og reynsla sem ekki hefði fengist annars.
Til þess að samfélagið verði sem best er nauðsynlegt að þeir eldri líti á sig sjálfa sig sem fyrirmyndir þeirra sem yngri eru. Fyrirmyndir eru jákvæð hvatning til að leggja hart að sér. Það að eiga góða fyrirmynd hvetur til dáða.
Það er þó langt frá því auðvelt að velja góða fyrirmynd. Margir falla í þá gryfju að líta svo á að ytra byrði skipti mestu máli en svo er auðvitað ekki. Það eru hinir mannlegu þættir sem koma til með að skipta meira og meira máli í þróun samfélaga og - þjóða. Að geta sýnt samúð, sett sig í spor annarra, láta sig málefni varða, sýna góðmennsku, geta fyrirgefið, sýna þrautseigju, vera til staðar, gefa annað tækifæri, segja frá, tilheyra, vera óhræddur við að gera eitthvað nýtt - þetta eru þættir sem kenndir eru mann fram af manni. Þetta eru þættir sem góðar fyrirmyndir eiga að bera.
Þess vegna er mikilvægt að grunnurinn sé sterkur. Í æskunni búa tækifærin til að þroskast, í leiknum búa tækifæri til þess að upplifa og prufa sig áfram. Án leiks er engin vinátta. Eða eins og Helgi Hálfdánarson þýddi orð Dorothy L. Holtes:
Það læra börn sem þau búa við
Það barn sem býr við hnjóð lærir að fordæma.
Það barn sem býr við hörku lærir fólsku.
Það barn sem býr við aðhlátur lærir einurðarleysi.
Það barn sem býr við ásakanir lærir sektarkennd.
Það barn sem býr við mildi lærir þolgæði.
Það barn sem býr við örvun lærir sjálfstraust.
Það barn sem býr við hrós lærir að viðurkenna.
Það barn sem býr við réttlæti lærir sanngirni.
Það barn sem býr við öryggi lærir kjark.
Það barn sem býr við skilning lærir að una sínu.
Það barn sem býr við alúð og vináttu lærir að elska.
Vertu fyrirmynd.