13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Aukið álag á bráðamóttöku SAk vegna Covid
COVID-19-heimsfaraldur veldur auknu álagi á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri (SAk). Einstaklingar sem leita á deildina með vandamál sem ekki eru metin bráð geta átt von á því að verða vísað í önnur úrræði. Þetta kemur fram á vef SAk.
„Vegna mikils vaxtar í faraldrinum hérlendis verður aðgangur aðstandenda takmarkaður enn frekar en áður. Aðstandendum er nú óheimilt að fylgja skjólstæðingi inn á deildina og að dvelja á biðstofu bráðamóttöku. Undantekningar eru gerðar fyrir börn og þá skjólstæðinga sem vegna fötlunar þurfa fylgd aðstandanda, eða ef sjúkdómsástand eða kringumstæður krefjast nærveru aðstandanda. Í þeim tilvikum verður einum aðstandanda leyft að fylgja viðkomandi inn á deildina.
Mikilvægt er að minna á að ef grunur er um að einstaklingur sé með COVID-19 skal viðkomandi ekki mæta á bráðamóttöku heldur hafa samband við heilsugæslustöð símleiðis eða í gegnum Heilsuveru, eða hringja í síma 1700. Í neyðartilvikum skal hringja í 112.
Við brýnum fyrir fólki að gæta að einstaklingsbundnum sóttvörnum; spritta og þvo hendur og halda 1m (helst 2m) fjarlægð!,“ segir á vef SAk.