Atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum minna en á landsvísu

Mynd/Framsýn.
Mynd/Framsýn.

Í lok júlí voru 186 skráðir atvinnulausir á félagssvæði Framsýnar stéttarfélags í Þingeyjarsýslum eða 5%. Á sama tíma er skráð atvinnuleysi á landsvísu 8,8%.

Flestir eru skráðir í fjölmennasta sveitarfélaginu, Norðurþingi eða 140 manns. 20 eru á skrá í Skútustaðahreppi, 25 í Þingeyjarsveit og einn í Tjörneshreppi. Athygli vekur að Mun fleiri karlar en konur eru á atvinnuleysisskrá. Karlar voru 116 og konur 70.

Í samtali við Vikublaðið segir Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar að það liggi ljóst fyrir að horfur í atvinnumálum séu ekki góðar fyrir veturinn. „Ferðaþjónustan hefur gengið alveg ótrúlega vel í sumar og búið að vera víðast hvar mikið að gera á svæðinu. Það sama má segja um byggingaiðnaðinn, þannig að sumarið hjá flestum er að koma bara mjög vel út. Menn eru hins vegar að verða vari við það núna að það er samdráttarskeið fram undan. Þar kemur bæði til að töluvert er um uppsagnir í ferðaþjónustunni og þá fer áhrifanna vegna uppsagnanna hjá PCC á Bakka að gæta í ríkari mæli. Þannig að það má búast við því að þessi vetur verði mörgum erfiður og við förum að sjá háar tölur varðandi atvinnuleysi,“ segir Aðalsteinn.

Þá bendir Aðalsteinn á það að ferðaþjónustan m.a. sé að einhverju leiti mönnuð á útlendingum sem margir hverjir flytji hreinlega úr landi. Það er því ekki víst að tölur um atvinnuleysi gefi nákvæma mynd af ástandinu.

/epe

Nýjast