Átta tilboð í nýja norðurstöð Heilsugæslunnar á Akureyri
Alls bárust 8 tilboð frá 5 aðilum í verkefni við Heilsugæsluna á Akureyri, norðurstöð þar sem óskað var eftir leiguhúsnæði. Tilboð voru opnuð fyrr í dag hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. Þau gögn sem bárust verða nýtt til að ákveða næstu skref.
Ríkiskaup fyrir hönd Ríkiseigna óskað eftir því fyrr á árinu að taka á leigu húsnæði fyrir starfsemi Heilsugæslunnar á Akureyri, norðurstöð. Miðað er við að húsnæði verði tekið á langtímaleigu til 15 ára, , fullbúið til notkunar, án lauss búnaðar. Gerð var krafa um staðsetningu innan starfssvæðis norðurstöðvar heilsugæslunnar á Akureyri og að aðgengi væri gott þar með talið fyrir hreyfihamlaða, hjólandi, gangandi og fyrir sjúkrabifreiðar auk þess sem krafa var gerð um næg bílastæði. Húsrýmisþörf nýju heilsugæslunnar er áætluð um 1.660 fermetrar.
Heilsugæslan á Akureyri er heilbrigðisstofnun með samfelldri og alhliða heilsugæsluþjónustu sem grundvallast á sérþekkingu á sviði heimilislækninga, hjúkrunar, heilsuverndar og byggir á víðtæku þverfaglegu samstarfi. Því skiptir staðsetning húsnæðisins, þ.e. nálægð við helstu stofnbrautir og almenningssamgöngur, miklu máli við staðarval.