Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning hafin!

Formaður FVSA Eiður Stefánsson
Formaður FVSA Eiður Stefánsson

Fyrr í vikunni undirritaði Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni (FVSA) / Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins (SA) og Félag atvinnurekenda (FA). Vikublaðið náði tali af Eið Stefánssyni, formanni FVSA og samninganefndar LÍV.

Samningurinn þess virði að leggja fyrir félagsmenn

„Eftir snarpa viðræðulotu stöndum við með undirritaðan samning í höndunum, auðvitað hefðum við viljað ná meiru, en viðræður enda sjaldnast þannig að maður fái allar sínar óskir uppfylltar“, segir Eiður, sem telur samninginn góðan. „Þetta  er stuttur samningur sem gildir til janúarloka 2024 og launahækkanir eru afturvirkar til 1. nóvember, sem ég tel að skipti miklu máli fyrir okkar félagsmenn og þess virði að leyfa þeim að kjósa um.“

Á vef félagsins kemur fram að samningnum er ætlað að styðja við kaupmátt launa, veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika og skapa forsendur fyrir langtímasamningi. Samningarnir fela í sér launahækkun upp á 6,75% frá 1. nóvember þó að hámarki 66.000 kr. Desemberuppbótin verður 103.000,- kr. fyrir árið 2023 og orlofsuppbótin 56.000,- kr.

„Samningnum fylgir líka verkáætlun þar sem rætt verður um aðra liði en launaliðinn og lögð drög að næsta samning. Þannig tryggir þessi samningur félagsmönnum launahækkun þar til langtímasamningur næst“ bætir Eiður við.

Auðvelt að greiða atkvæði

„Það er auðvelt að greiða atkvæði um samninginn, en það tekur aðeins um tvær mínútur! Inni á vef félagsins www.fvsa.is eru allar helstu upplýsingar um samninginn ásamt link fyrir rafræna atkvæðagreiðslu þar sem viðkomandi skráir sig inn á rafrænum skilríkjum og kýs. Við verðum með stuttan kynningarfund á mánudaginn kl. 20:00 – 21:00 í sal Lions þar sem við förum yfir samninginn og launataxtana“ segir Eiður og leggur áherslu á að félagsmenn nýti atkvæðarétt sinn.  Slóð inn á kosningavef: https://www.fvsa.is/is/frettir/frettir/atkvaedagreidsla-er-hafin

Almenn hækkun á launum og hækkun á launatöxtum

Ef rýnt er í  samninginn hækka launataxtar félagsmanna FVSA að meðaltali um ellefu prósent. Mesta hækkunin er hjá þeim starfsmönnum sem hafa unnið fimm ár eða lengur hjá sama fyrirtæki. Í þeim tilfellum nemur hækkunin allt að þrettán prósentum. Launataxtar hækka í frá 36.015 kr. til 52.139 kr. og gilda frá 1. nóvember 2022. Almenn hækkun á launum er 6,75%. Hækkun launataxta samkvæmt samning við SA eftir starfsheitum:

 

Það þarf að verja betur þá sem eru á leigumarkaði

Eiður segir aðkomu ríkisstjórnarinnar að samningnum skipta máli og að markmið þeirra séu góð „en það vantar enn verulega upp á að verja betur þá sem eru á leigumarkaði. Það er erfitt að horfa upp á stóreignafólk maka krókinn með sógnarháu leiguverði. Það virðist vera eilífðarverkefni að koma böndum þar á“ segir Eiður að lokum.

 

Nýjast