13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Sammála um ágæti samstarfsins í bæjarstjórn þrátt fyrir hnökra
Kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn Akureyrarbæjar ákváðu sl. september að afnema minni- og meirihluta í bæjarstjórn það sem eftir lifir kjörtímabils. Markmiðið var að mynda breiða samstöðu vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar heimsfaraldurs og í rekstri sveitarfélagsins. Ágreiningur kom upp í bæjarstjórn í Tónatraðarmálinu svokallaða nýverið og klofnaði bæjarstjórnin í því máli en fyrirhugað er að reisa þar háar byggingar.
Nú þegar um níu mánuðir eru liðnir af samstarfinu og eitt ár er eftir af kjörtímabilinu ákvað Vikublaðið að kanna hug oddvitina um samstarfið og hvernig restin af kjörtímabilinu horfir við þeim.
Allir bæjarfulltrúarnir sem blaðið ræddi við voru sammála um að mikilvægasta málið sem framundan væri sé að rétta reksturinn af og gera hann sjálfbæran. Einnig voru allir á einu máli um að samstarfið hafi heilt yfir gengið vel.
Hlynur Jóhannsson, oddviti Miðflokksins, segir þó að samstarfið hafi beðið hnekki í Tónatraðarmálinu. „En svo er bara spurning hvernig fólk vinnur úr því. Við verðum alltaf að hafa það að leiðarljósi að við erum að vinna fyrir bæinn okkar en ekki okkur sjálf.“ Hvort hann telji að samstarfið muni lifa út kjörtímabilið segir Hlynur að tíminn muni leiða það í ljós.
Sóley Björk Stefánsdóttir, oddviti Vg, segir að með samstarfinu sé í raun að ræða mikla nýsköpun á pólitíska sviðinu. „Sem eðlilega gengur ekki alltaf hnökralaust en okkur hefur borið gæfa til að vinna okkur í gegnum þá árekstra sem við höfum lent í,“ segir Sóley og jafnramt að hún telji að samstarfið haldi út kjörtímabilið. Eva Hrund Einarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að hver og einn bæjarfulltrúi eigi að kjósa út frá sinni sannfæringu í hverju máli. „Ég tel ég að það hafi verið gert frá því þetta samstarf hófst. Það er samt ekkert launungarmál að Tónatraðarmálið hefur reynt á samstarfið þó að ég telji það muni ekki hafa neina eftirmála. Ég er vongóð um áframhaldandi samstarf þó að tíminn verði bara að leiða það í ljós.“
Segir enga málefnalega ástæðu fyrir sundrung
„Samstarfið hefur gengið vel en eins og gefur auga leið þá erum við hins vegar ekki sammála um eitt og allt og það getur tekið virkilega á þegar svo er,“ segir Hilda Jana Gísladóttir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn. „Ég vil hins vegar trúa því að hægt sé að vinna vel saman þrátt fyrir að vera ekki sammála í einu og öllu og get ekki séð málefnalega ástæðu fyrir því að það ætti ekki að vera hægt að halda samstarfinu út kjörtímabilið,“ segir Hilda Jana.
Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar og oddviti L-listans, segir að samstarfið eigi að snúast um að meirihluti myndist um hvert og eitt mál og að hver bæjarfulltrúi kjósi eftir sinni sannfæringu. Hún segir niðurstöðuna í Tónatraðarmálinu hafa verið eins lýðræðisleg og hún gat orðið, „og ætti að mínu mati ekki að hafa eftirmála.“ Halla segist jafnframt gera sér vonir um að samstarfið haldi út kjörtímabilið.
Mikilvægt að standa þétt saman
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknarflokksins, segir mikilvægt að horfa fram á við. „Í Tónatraðarmálinu greiddu bæjarfulltrúar atkvæði á sínum forsendum. Ég tel að þetta mál sé að baki og þýðir ekki að vera að velta sér upp úr því.“ Um áframhaldandi samstarf segir Guðmundur: „Það er afar mikilvægt að við stöndum saman í þeirri vinnu sem framundan er.“