Allt að 900 manns í flugstöðinni í upphafi helgar

Akureyrarflugvöllur. Mynd úr safni.
Akureyrarflugvöllur. Mynd úr safni.

„Árið hefur verið ágætt í heild, en við sáum greinilegan kipp upp á við þegar leið á haustið,“ segir Ari Fossdal stöðvarstjóri Iceland air á Akureyrarflugvelli. Íslendingar hafa heilmikið verið á faraldsfæti nú í haust og margir lagt leið sína í helgarferðir norður til Akureyrar. Að sama skapi hafi bæjarbúar verið duglegir að skjótast suður.

Ari segir að alveg frá í vor hafi verið ágætis gangur í fluginu, en á haustmánuðum, september og október hafi greinilega komið kippur í helgarferðirnar og þær njóta sívaxandi vinsælda. Hópar af ýmsu tagi eru á ferðinni, það eru árshátíðir, starfsmannahópar, saumaklúbbur, vinir og vinkonur á ferðinni og tilgangurinn að gera sér dagamun í höfuðstað norðurlands. „Þetta er heilmikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna í bænum.“

Jákvæð þróun

Nefnir Ari að á föstudögum séu í boði 6 flug milli Akureyrar og Reykjavíkur. Vélarnar taka 76 í sæti í hverri ferð og eru þær iðulega svo gott sem fullbókaðar báðar leiðir. Þannig láti nærri að um 900 manns fari um Akureyrarvöll í byrjun helgar. „Fólk er enn ekki í sama mæli og áður farið að ferðast til útlanda og þá er Akureyri greinilega góður kostur fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Mér sýnist að við séum smám saman að nálgast fyrri mörk í fluginu, það er eins og staðan var fyrir kórónuveiru. Þróunin er jákvæð,“ segir Ari.

Smellið gif

/MÞÞ

Nýjast