Allinn heyrir sögunni til

Hafist var handa við niðurrif Alþýðuhúsins fyrir viku. Akureyrarbær á lóðina og er til skoðunar hver…
Hafist var handa við niðurrif Alþýðuhúsins fyrir viku. Akureyrarbær á lóðina og er til skoðunar hvers konar hús verður reist á reitnum. Þvottahús var rekið í húsinu áður en það komst í eigu verkalýðsfélaganna Mynd MÞÞ

Alþýðuhúsið, Allinn á Akureyri heyrir nú sögunni til. Húsið var opnað með formlegum hætti sem Alþýðuhús í mars árið 1952, en sjö verkalýðsfélög í bænum höfðu keypt húsið og gert það upp. Áður hafði verið starfrækt þar þvottahús, Þvottur hf. en rekstur þess og „fyrsta flokks sænskra véla“ var auglýstur til sölu haustið 1951. Kaupfélagið keypti vélar og tæki og flutti upp í Grófargil.

Aðalskemmtistaður alþýðunnar

Aðdragandann að því að verkalýðsfélögin keyptu húsið má rekja til þess að almennir dansleikir í höfuðstað Norðurlands voru jafnan á árunum þarna á undan haldnir í Samkomuhúsinu. Árið  1950 voru sett upp föst sæti í húsinu sem komu í veg fyrir að hægt væri að sveifla sér þar um í dansi. Þessi breyting leiddi til þess að verkalýðsfélögin hröðuðu áformum síum um að koma sér upp húsi fyrir sína félagsmenn. Enda þótti orðið ansi dýrt að leiga út sali í bænum fyrir dansiböll.

Næstu tíu árin eftir kaup verkalýðsfélaganna var hús alþýðunnar aðal-skemmtistaður Akureyringa. Þar voru skikkanleg hjónakvöld, þótt vasapelinn væri jafnan nærtækur, og árshátíðir sem kröfðust þess að herrarnir væru í dökkum fötum og konurnar í síðum kjólum. En þar hélt líka nýi tíminn innreið sína, villtur dans og ögrandi hart rokk. Þannig varð Alþýðuhúsið, þegar tímar liðu, staður unga fólksins en betri borgararnir fóru á Hótel KEA segir í bók Jóns Hjaltasonar, Saga Akureyrar, 5. bin

Straumhvörf í júní 1958

„Straumhvörfin urðu í júníbyrjun 1958. Rokkið var komið í bíóið, svolítið í útvarpið, lítið eða kannski ekkert í búðir og ekkert á skemmtistaðina, hvorki Alþýðuhúsið né Hótel KEA. Þetta breyttist sumarið 1958. Þá varð Atlantic-kvartettinn til með þá bræður Ingimar og Finn Eydal í aðalhlutverkum. Það skemmdi síður en svo fyrir að ein vinsælasta söngkona landsins, Helena Eyjólfsdóttir, söng með Atlantic en við hlið hennar stóð helsta kvennagull Akureyringa, Óðinn Valdimarsson. Hann hafði byrjað söngferil sinn á Landinu, með hljómsveit Karls Adolfssonar, og var orðinn töluvert þekktur um allt Norðurland og á þröskuldi þess að verða landsfrægur. Þau tvö voru kannski ekki dæmigerðustu rokkarar Íslands en samt olli söngur þeirra taugatitringi hjá mönnum sem ekki máttu heyra minnst á þessa „gaddavírsmúsík“ sem tröllreið heiminum. Þó tók fyrst út yfir allan þjófabálk þegar rokkið var tengt minningu þjóðskáldsins og hins mæta Akureyrarprests, séra Matthíasar Jochumssonar.  Aðdragandinn var þessi.

  Hljómsveitin Atlantic á fullu, frá vinstri   Edwin Kaaber, Hjalti Hjaltason,
  Helena Eyjólfsdóttir, Finnur Eydal, Ingimar Eydal.

Danstónlist ekki skeyti frá skrattanum…

Í maí 1958 var stofnað félag á Akureyri sem setti sér það mark að kaupa annaðhvort Aðalstræti 50 eða Sigurhæðir og stofna þar minjasafn um Matthías. Félagið hafði úti allar klær til að afla fjár, meðal annars var efnt til upplesturs úr verkum skáldsins en fáir borguðu sig inn. Þá var slegið upp skemmtisamkomu við sundlaugina þar sem Atlantic var í aðalhlutverki. Þetta líkaði ekki ungum manni af Eyrinni, Bolla Gústavssyni: Ég er ekki „ ... hatrammur siðapostuli og tel danstónlist ekki skeyti frá skrattanum til sturlunar mannkyninu.“ En samt, öllu mátti nú ofgera, fannst Bolla, og þegar danshljómsveit væri látin flytja „tryllingsóð um Oh, my baby! Oh, my love“, og síðan „hvert dunandi rocklagið á fætur öðru“,  til að minnast séra Matthíasar þá væru menn löngu komnir yfir strikið. En þetta var skemmtisamkoma, svaraði Ingimar Eydal, haldin til fjáröflunar, en ekki minningarhátíð um skáldið.  Og við erum hér til að skemmta fólki, undirstrikaði Ingimar, en þessi hugsun lagði grunninn að því orðspori sem af honum fór og gríðarlegum vinsældum hljómsveitanna sem hann stjórnaði. Sjálfur voru hann, og Finnur bróðir hans, forfallnir djassistar og það varð hlutverk þeirra í sögu íslenskrar dægurlagatónlistar að koma „ ... með djassáherslur inn í poppmúsík“, eins og Finnur orðaði það sjálfur.“

 

Nýjast